„Hlaupum yfir Snæfell í þremur leikjum!“
„Ég er í sjöunda himni!“, sagði Guðjón Skúlason glaðbeittur í leikslok. „Við misstum þá aldrei of langt fram úr okkur. Við vorum þrem stigum undir í hálfleik og komum bara mjög ferskir tilleiks í seinni hálfleik. Vörnin hjá okkur í byrjun var alveg frábær og þá kom sóknin. Menn gerðu eins og þeim var sagt allir tíu og eiga heiður skilið.“
Guðjón bætti því við að hans menn væru að toppa á réttum tíma og sagði engan beyg í strákunum fyrir rimmuna við Snæfell. „Ég held að lið þurfi að varast okkur núna. Við erum með mjög beitt lið þessa stundina og erum á góðri siglingu þannig að ég hræðist ekki neitt.“
Baráttujaxlinn Fannar Ólafsson átti góðan leik fyrir sína menn í kvöld þar sem hann skoraði 25 stig og tók 11 fráköst. Hann sagði sigurinn í kvöld ekki hafa komið sér á óvart. „Við erum með miklu meiri breidd og þeir voru orðnir þreyttir í seinni hálfleik. Þegar við byrjuðum að hlaupa áttu þeir eiginlega enga orku eftir inni því þeir spila á sex mönnum á meðan við spilum á níu eða tíu. Við sýndum það bara núna að maður þarf ekki að kaupa sér Kana á miðju tímabili til að vinna leiki. Sama gildir um Snæfellinga sem spila líka á sex mönnum. Við ætlum líka að hlaupa yfir þá og gera það í þremur leikjum!“
VF-myndir: Hilmar Bragi