HLAKKA TIL AÐ SJÁ SKEMMTILEGAN OG DRENGILEGAN LEIK
Sparisjóðurinn er aðalstyrktaraðili Njarðvíkinga og er Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri ánægður með samstarfið.,,Við höfum alltaf stutt dyggilega íþróttir á Suðurnesjum og talið mikilvægt að styrkja uppbyggingar- og æskulýðsstarf á svæðinu. Í gegnum árum höfum við stutt körfuna jafnt í Keflavík sem Njarðvík og glaðst mjög yfir velgengni beggja. Á síðasta ári gerðumst við aðalstyrktaraðili kkd. Njarðvíkur og eru tengslin orðin sterk og báðum mikilvæg. Við teljum það vera hag okkar að vera í góðum tengslum við samfélagið sem við búum í og teljum að samstarfið við kkd. Njarðvíkur hafi ótvírætt markaðsgildi. Við erum heimamenn og náið tengdir öllum hliðum mannlífsins á svæðinu, íþróttum sem annarri félagsstarfsemi. Ég hef fylgst með körfunni alla tíð frá skólaárunum og sótt leiki eftir mætti. Ég hef fylgst grannt með Njarðvíkurliðinu í gegn um tíðina og þrátt fyrir velgengni Keflvíkinga það sem af er tímabilsins þá kemur Njarðvíkurliðið til með að sýna þann karakter sem einkennt hefur leik liðsins síðastliðna áratugi því það er enginn vafi að Njarðvíkingar eiga sigursælasta körfuboltalið landsins. Ég hlakka til að mæta í höllina á laugardaginn og sjá skemmtilegan og drengilegan leik.”