Hjörtur Harðarson hættur að þjálfa Keflavík
Hjörtur Harðarson hefur sagt upp störfum sem þjálfari kvennaliðs Keflavíkur í körfuknattleik.
Ákvörðunin kemur þó nokkuð á óvart þar sem Hjörtur hefur náð góðum árangri með liðið á sínum fyrsta vetri. Liðið hefur unnið alla fjóra titla sem í boði eru og hafði unnið alla leiki sína á árinu fram að undanúrslitaleiknum gegn Grindavík sl. miðvikudag.
Ástæða uppsagnarinnar er, samkvæmt heimasíðu Keflavíkur, ágreiningur milli þjálfara og leikmanna um starfsaðferðir en Hjörtur bauðst til að víkja til að leysa þann ágreining.
Sigurður Ingimundarson, landsliðsþjálfari, mun stýra liðinu það sem eftir er leiktíðar, en Keflavíkurstúlkur leika oddaleik gegn Grindavík um sæti í úrslitum Íslandsmótsins á morgun. Sigurliðið mun mæta ÍS í úrslitunum þar sem þær báru sigurorð af KR í annað sinn í gær.