Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hjólhestaspyrna Jóhanns Þórs tryggði Víði stig
Jóhann Þór Arnarsson skorar fyrra mark sitt gegn KFG en hann er markahæstur í 3. deild með þrettán mörk. Mynd af Facebook-síðu Víðis
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 23. júlí 2022 kl. 12:48

Hjólhestaspyrna Jóhanns Þórs tryggði Víði stig

Tvö efstu lið 3. deildar karla í knattspyrnu, Víðir og KFG, mættust á Nesfiskvelli í gær. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum í efsta sæti deildarinnar en KFG er með betra markahlutfall. Þrátt fyrir að lenda tvívegis undir sýndu heimamenn mikinn karakter og jöfnuðu leikinn sem endaði 3:3.

Víðir - KFG 3:3

Gestirnir komust yfir strax á 5. mínútu en Andri Fannar Freysson jafnaði leikinn skömmu síðar (13').

Fyrri hálfleikur var fjörugur og KFG komst yfir á nýjan leik á 21. mínútu og nokkrum mínútum eftir það tvöfölduðu þeir forystu sína (27').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jóhann Þór Arnarsson minnkaði muninn á 31. mínútu og gestirnir leiddu með einu marki í hálfleik.

Í þeim seinni var hart barist, gestirnir reyndu að halda sínu en Víðismönnum virtist ætla að ganga illa að ná inn jöfnunarmarkinu. Undir lok leiksins, þegar venjulegur leiktími var við það að renna út, jafnaði markaskorarinn Jóhann Þór leikinn með stórglæsilegu marki þegar hann smellti í eina hjólhestaspyrnu (89').

Það er allt hnífjafnt á toppi 3. deildar, Víðir og KFG eru með 25 stig hvort í efstu sætunum en Dalvík/Reynir leikur gegn botnliði KH seinna í dag og með sigri verða þeir þriðja liðið með 25 stig í efsta sæti. Sindri frá Höfn er stigi á eftir Dalvík/Reyni og leikur við Kára upp á Skaga í dag.


Haukar - Grindavík 1:2

Mimi Eiden jafnaði leikinn fyrir Grindavík með marki úr vítaspyrnu. Mynd úr safni Víkurfrétta

Grindvíkingar unnu sinn fyrsta sigur í Lengjudeild kvenna síðan í byrjun júní þegar þær lögðu Hauka á útivelli í gær.

Haukar komust yfir á 14. mínútu og leiddu leikinn framan af. Á 70. mínútu jafnaði Mimi Eiden leikinn með marki úr vítaspyrnu og á þeirri 78. skoraði Tinna Hrönn Einarsdóttir sigurmark Grindvíkinga.

Langþráður sigur og Grindavík er sem stendur um miðja deild, í sjötta sæti með ellefu stig, en Fylkir er tveimur stigum á eftir Grindvíkingum og á leik til góða. Augnablik er einnig með níu stig eins og Fylkir og á tvo leiki til góða.