„Himnaríki“ sló fyrsta höggið á Evrópumóti öldunga í golfi í Leiru
Austuríski kylfingurinn Norbert Himmelreich sem fékk íslensku þýðinguna „Himnaríki“, sló fyrsta höggið á Evrópumóti landsliða 70 ára og eldri í golfi á Hólmsvelli í Leiru í morgun klukkan átta.
Ellefu þjóðir sem flestar leika með tvö lið, þ.e. í keppni með og án forgjafar leika næstu þrjá daga í Leirunni. Aðstæður í morgun voru eins og best verður á kosið, logn og blíða en skýjað. Rigning í nótt var vel þegin á þurran golfvöllinn en mikill tími hefur farið í að vökva Hólmsvöll undanfarnar vikur í mikilli blíðu á landinu. Völlurinn skartar engu að síður sínu fegursta þó svo brautirnar séu margar gulleitar vegna þurrka. Flatirnar skera sig úr, skærgrænar en mest áhersla er jafnan lögð á vökvun þeirra þegar veðurguðirnir bjóða upp á hátíðarveður dag eftir dag.
Í fyrsta ráshópi voru tveir Austurríkismenn og tveir Íslendingar. Okkar menn voru þeir Alfreð Viktorsson og Ásgeir Nikulásson og lá vel á þeim í morgun þegar þeir slógu fyrsta höggið. Það er létt andrúmsloftið í hópi kylfinga og útlendingarnir hafa verið duglegir að hrósa aðstæðum í Leirunni, finnst völlurinn fallegur og vel hirtur. Einn Þjóðverjinn sagðist vilja eyða öllu sumrinu sínu í Leirunni, svo ánægður var hann.
Mótið fer fram næstu þrjá daga. Fyrst er leikið í tveggja manna liðum eftir fyrirkomulagi sem heitir „Betri bolti“. Annan daginn er áfram leikið í tveggja manna hópum en eftir öðru fyrirkomulagi sem heitir „Greensome“ en þá slá báðir leikmenn upphafshögg á hverjum upphafsteig, velja svo betra höggið en slá svo annað hvert högg eftir það. Á lokadeginum leika allir keppendur höggleik, hver með sinn bolta.
Í gær var setningarhóf mótsins þar sem keppendum og fylgdarliði var boðið velkomið. Yfir eitthundrað manns gista á hótelum í Keflavík á meðan mótið stendur yfir en því lýkur með lokahófi í Bláa lóninu á föstdagskvöld.
Hallbjörn Sævars og Sigurður Friðriksson, ræsar aðstoða fyrsta ráshópinn í morgun.
Skagamaðurinn Alfreð Viktorsson slær fyrsta höggið hjá íslenska liðinu.
Norðmennirnir voru ánægðir þegar þeir mættu í Leiruna í blíðunni í morgun.
Þó liturinn sé ekki skærgrænn eftir mikla þurrkatíð að í sumar er hann í mjög góðu standi og erlendu keppendurnir hafa hlaðið hann lofi.
Friðþjófur Helgason, ljósmyndari myndaði öll liðin í setningarhófinu.
Keppendur nutu léttra veitinga í setningarhófinu sem haldið var í golfskálanum í Leiru.
Jón Ásgeir Eyjólfsson, forseti Golfsambands Íslands bauð keppendur velkomna.
Þessi erlendi keppandi var ánægður með veitingarnar sem komu frá veitingafyrirtækinu Matarlyst í Reykjanesbæ, sérstaklega íslensku ostana.