Hilmar Geir í Keflavík og Einar Helgi í Grindavík
Hilmar Geir Eiðsson er genginn til liðs við Keflavík frá Haukum en þetta staðfesti hann við Fótbolta.net í dag. Þessu greinir fotbolti.net frá í dag. Hann gerir tveggja ára samning við Keflavík sem komst að samkomulagi um að fá hann frá Haukum þó hann hafi verið samningsbundinn Hafnarfjarðarliðinu út næsta ár.
,,Mig vantaði nýja áskorun eftir að hafa verið lengi í Haukunum. Ég er spenntur fyrir að leika með Keflavík og tel að ég hafi sýnt í fyrra að ég get spilað í úrvaldsdeildinni," sagði Hilmar Geir við Fótbolta.net í dag. ,,Hluti af fjölskyldu minni er líka frá Keflavík svo að þau geta byrjað að hvetja mig af alvöru núna."
Hilmar Geir hefur spilað á hægri kanti og miðju hjá Haukum undanfarin ár. Hilmar Geir er 25 ára gamall og hefur allan sinn feril leikið með Haukum þar sem hann hóf meistaraflokksferil sinn árið 2004.
Hilmar Geir hefur leikið með liðinu í þremur efstu deildum Íslandsmótsins en samtals hefur hann leikið 133 leiki í deild og bikar og skorað í þeim 30 mörk. Hann lék 22 leiki með liðinu í Pepsi-deildinni síðastliðið sumar og skoraði fjögur mörk.
Einnig hefur Grindavík fengið kantmanninn, Einar Helga Helgason til liðs við sig frá Njarðvík. Einar Helgi er uppalinn Grindvíkingur en hann lék með Njarðvíkingum í fyrra. Þar skoraði hann eitt mark í tólf leikjum í fyrstu deildinni auk þess sem hann kom við sögu í VISA-bikarnum.
Þessi 23 ára gamli leikmaður hefur einnig leikið með Þrótti Vogum og GG á meistaraflokksferli sínum. Faðir hans er Helgi Bogason aðstoðarþjálfari Grindvíkinga og fyrrum þjálfari Njarðvíkinga.
Mynd: Jón Örvar Arason - Hilmar Geir Eiðsson hefur gengið til lið við Keflavík.
Mynd: Davíð Örn Óskarsson - Einar Helgi Helgason hefur gengið til liðs við Grindavík.