HILMA Í FÓTSPOR HULDU
Sandgerðingurinn og fimleikadrottningin Hilma Sigurðardóttir hyggst feta í fótspor frænku sinnar Huldu Lárusdóttur og sækja verðlaun á Íslandsmótið í þolfimi sem fer fram í íþróttahúsinu í Digranesi fimmtudaginn 13. apríl nk.Hilma er átján ára nemi á náttúrufræðibraut Fjölbrautarskóla Suðurnesja og fyrrum fimleikastjarna en hún æfði og keppti í fimleikum í 11 ár, frá 6 ára aldri til sautján. „Ég komst fljótt að því að ég gat ekki setið auðum höndum og fór því að æfa hjá Stúdeo Huldu eftir hálfsársfrí frá fimleikunum. Hulda er eini Suðurnesjamaðurinn sem unnið hefur til verðlauna í þolfiminni en hún fékk bronsverðlaun 1993 og ákváð ég reyna að slá henni við. Við Hulda erum ekki bara frænkur heldur líka fæddar með dagsmillibili í Vatnsberamerkinu.“ sagði Hilma í yfirheyrslu VF. „Undirbúningurinn er búinn að vera skemmtilegur og Hulda verið mér innan handar á öllum stigum hans. Nú tekur spennan við og hlakka ég mikið til keppninnar.“