Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 19. júlí 2000 kl. 20:25

Hestamannafélagið Máni í uppsveiflu

Það þykir einstakt um land allt árangur krakkanna í Hestamannafélaginu Mána á Landsmóti hestamanna sem fram fór í byrjun júlí í Reykjavík. Máni sendi fulltrúa frá sér í allar keppnisgreinar á mótinu og í öllum flokkum komust Mánafélagar í úrslit. Bestur var árangurinn í barnaflokki en þar sigraði Camilla Petra Sigurðardóttir, Heiða Rut Guðmundsdóttir varð í fjórða sæti og Róbert Þór Guðnason lenti í því ellefta. Keppendur voru um sjötíu talsins í hverjum flokki. Í unglingaflokki kepptu Auður Sólrún Ólafsdóttir, Elva Björk Margeirsdóttir og Hrafnhildur Gunnarsdóttir. Þar komst Auður Sólrún í fimmta sæti. Aðrir keppendur stóðu sig mjög vel. Í ungmennaflokki 17-20 ára kepptu Arnar Dór Hannesson, Guðmundur Óskar Unnarsson og Gunnar Örn Einarsson. Guðmundur Óskar lenti þar í tíunda sæti. Strákarnir stóðu sig allir vel. Meira að segja lentu hestar frá Mána í úrslitum í fullorðinsflokki í A og B flokki gæðinga en slíkt hefur ekki gerst í átján ár. Frábær keppnishópur frá Mána! Hestamannafélagið Máni vakti mjög mikla athygli á þessu landsmóti vegna árangurs félagsins. Yngri deildirnar voru okkur öllum til sóma! Þetta sögðu viðmælendur blaðsins, þeir Guðni Grétarsson, Jón B. Olsen og Sigurður V. Ragnarsson en þeir sitja allir í stjórn Mána ásamt fleirum. Undanfarin tíu ár hefur félagið lagt mjög mikið upp úr barna- og unglingastarfi. Árangurinn var góður árið 1998 og enn betri nú árið 2000. Félagsmönnum hefur fjölgað mikið á þessum árum og nú hefur þetta þróast í fjölskyldusport. Ferðanefnd félagsins hefur starfað ötullega og hafa hestaferðir verið mjög vel sóttar. M.a. fóru 120 manns í árlega hópferð út í Voga nú í vor. Fólk á öllum aldri kemur saman á Mánagrund og nýtur þess að huga að hestunum. Fara í reiðtúr eða bara kíkja í spjall hjá félögunum. Það er skemmtilegt og vinalegt andrúmsloft í hestaþorpinu út á Mánagrund. Fólk finnur fljótt að það er velkomið í hópinn. Þetta er reynsla eins viðmælanda blaðsins. En víkjum nú að hugmyndum stjórnarinnar í félaginu. Hvernig sjá þeir framtíðina? Þeir segjast hafa lagt heilmikið upp úr góðri kennslu og tilsögn á undanförnum árum. Námskeið með Olil Amble, heimsmeistara í hestaíþróttum, hefur farið fram í reiðhöllinni fyrir alla aldurshópa. Olil var einnig yfirþjálfari hópsins frá Mána sem keppti á landsmótinu. Hópurinn var sendur í æfingabúðir helgina fyrir keppni austur fyrir fjall í Ingólfshvol. Þar dvaldi hópurinn ásamt foreldrum sínum, systkinum og keppnishesti. Foreldrar borguðu allan kostnaðinn. „Hestamannafélagið Máni er ekki í stakk búið til þess að styrkja neinn fjárhagslega. Það mun vonandi breytast í framtíðinni. Við vonumst eftir stuðningi bæjaryfirvalda. Við erum að byggja upp heilmikið íþróttastarf með ungmennum bæjarins sem skilar sér. Þetta er eitt öflugasta forvarnarstarf sem til er. Hestaíþróttin er í senn ögrandi og skemmtileg. Það krefst mikils sjálfsaga og einbeitningar til að ná langt í greininni. Fyrir þá sem ekki vilja keppa þá er umgengnin við hestana einnig mjög ánægjuleg og gefandi. Þegar maður og hestur ná andlegu sambandi þá er ekki aftur snúið því þetta samband byggir fólk upp á allan hátt,“ segja þeir Jón, Guðni og Sigurður. Aðstaðan á Mánagrund er bágborin Það sem gerir árangur Mánafélaga á landsmótinu mjög sérstakan er bág aðstaða félagsins. Keppendur þurftu m.a. að keyra til Reykjavíkur fyrir mótið og æfa þar á löglegum keppnisvelli. Keppnisvöllurinn á Mánagrund er nánast ónýtur og hættulegur til keppni. Það veldur hestamönnum töluverðum áhyggjum að reiðhöllin hefur verið til sölu undanfarið en hún er í einkaeign. Þeir eru hræddir um að missa reiðhöllina í hendur einhverra sem ekki tengjast hestaíþróttum á neinn hátt. Þá er ljóst að við missum æfingaaðstöðu segja þeir. Námskeið hafa einnig farið fram þarna. Mánafélagar mega ekki til þess hugsa að missa reiðhöllina. Við drögumst þá verulega aftur úr öðrum félögum. Við verðum að hafa tryggan aðgang að reiðhöllinni. Alls staðar þar sem bæjaryfirvöld hafa komið inn í málin hefur tekist að byggja upp glæsilega aðstöðu fyrir hestaíþróttina. Nægir að nefna fyrirmyndarsvæði hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði. Atvinnumenn eru einnig starfandi hjá félögunum en þeir halda félaginu í háum gæðastaðli. Þetta eru þá tamningamenn sem félagarnir geta leitað til og fengið leiðsögn. Íslandsmót á Mánagrund árið 2003 ! Við erum metnaðarfullir gagnvart félaginu okkar hér á Suðurnesjum. Við viljum byggja upp nýja löglega keppnisvelli. Draumurinn er að halda Íslandsmót í greininni árið 2003. Hestaíþróttin er sífellt að sækja í sig veðrið. Íslendingar eru oft einkenndir erlendis með íslenska hestinum. Alls staðar hrífur íslenski hesturinn fólk. Ef við héldum svona stórt mót hérna á Suðurnesjum þá kæmu hingað fullt af gestum, bæði erlendum og innlendum. Þessu fylgir mikill ávinningur fyrir alls konar aðila. Þetta mót myndi koma Suðurnesjum vel á kortið. En það eru blikur á lofti varðandi aðstöðu félagsins. Við erum að skipa framkvæmdanefnd núna sem á að hafa forgöngu um viðræður við bæjaryfirvöld í sambandi við uppbyggingu félagsins. Það er einlæg von okkar að bæjaryfirvöld sjái forvarnargildi starfseminnar fyrir æskuna í bæjarfélaginu og styðji við bakið á okkur. Það starf sem fram fer núna hjá Mána er einungis gert fyrir dugnað nokkurra manna. Það þarf meira til ef starfsemin á að ganga til lengdar. Í allflestum bæjarfélögum er boðið upp á reiðnámskeið fyrir börn á sumrin. Þar kemur til fjárframlag frá viðkomandi bæjaryfirvöldum svo starfsemin geti farið fram. Hestamannafélagið Máni sá sér ekki fært að standa einn undir sumarnámskeiði nú vegna fjárskorts. Auðvitað viljum við Mánafélagar vera samkeppnishæfir á sumrin með námskeið fyrir börn. Vonandi verðum við með í námskeiðspakka bæjaryfirvalda næsta sumar“.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024