Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Henning og Árni Íslandsmeistarar í rallakstri
Sunnudagur 20. október 2013 kl. 13:38

Henning og Árni Íslandsmeistarar í rallakstri

Félagarnir Henning Ólafsson og Árni Gunnlaugsson úr Reykjanesbæ urðu í gær Íslandsmeistarar í rally. Þeir höfðu leitt Íslandsmótið í rallakstri í allt sumar og voru með 7 stiga forskot fyrir lokakeppnina. Til að tryggja Íslandsmeistarasætið þurftu þeir félagar að hafna í 6. sæti eða ofar. Þeir náðu 6. sætinu í gær og þar með var Íslandsmeistaratitillinn í höfn.

Í Víkurfréttum sl. fimmtudag var fjallað um þá félaga og fer umfjöllunin hér á eftir:


Henning Ólafsson og Árni Gunnlaugsson úr Reykjanesbæ:
Geta orðið Íslandsmeistarar í rally um helgina

Félagarnir Henning Ólafsson og Árni Gunnlaugsson úr Reykjanesbæ á Subaru Impresa með 220 hestöfl undir húddinu eiga góðan möguleika á að verða Íslandsmeistarar 2013 í Rally. Þeir leiða Íslandsmótið með sjö stiga forskoti.

Um helgina fer fram lokaumferð Íslandsmótsins í rallakstri og síðustu kvöld hafa farið hjá þeim Henning og Árna að gera keppnisbílinn kláran fyrir keppni. Þeir lentu í smá vandræðum í síðustu keppni þegar gríðarlegur hiti frá forþjöppu bílsins hreinlega kveikti í rafkerfi bifreiðarinnar. Nú hefur verið skipt um rafkerfið og hitaþolinn hlíf sett við forþöppuna til að koma í veg fyrir annan eins bruna.

Takist þeim félögum ætlunarverk sitt, að landa Íslandsmeistaratitli, er það þeirra fyrsti titill. Þeir eru alls ekki á kraftmesta rallýbílnum en hafa ekið af miklu öryggi í sumar sem hefur skilað þeim á toppinn. Í lokaumferðinni á laugardag er búist við að 14 áhafnir taki þátt. Þeir Henning og Árni þurfa að vera í 6. sæti eða ofar til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Henning er ökumaðurinn í liðinu og Árni er í sæti aðstoðarökumanns og sér um að koma leiðarlýsingum í eyru ökumannsins. Góð leiðarlýsing skiptir öllu máli því í rallakstri skipta sekúndur miklu máli og því nauðsynlegt fyrir ökumann að vita hvað er á bakvið næstu hæð. Þeir félagar aka því allar sérleiðirnar daginn fyrir keppni og skrá niður allt sem þeir þurfa að vita um leiðina og hvernig best sé að aka hana.

Í samtali við Víkurfréttir segja þeir að hestöflin skipti ekki mestu máli í góðum rallýbíl. Hemlar og fjöðrun sé það sem skiptir mestu. Þá er gott að vera á góðum dekkjum en hjólbarðar undir rallýbíl endast hugsanlega aðeins tvær keppnir. Í sumar hafa þeir eytt um 300.000 krónum í hjólbarða og í 100 kílómetra akstur geta auðveldlega farið 100 lítrar af bensíni. Þá hafa þeir Henning og Árni með sér fullan sendibíl af varahlutum og tvo verkstæðismenn sem sjá um viðgerðir í þjónustustoppi á milli sérleiða.

Þeir sem vilja kynna sér rall helgarinnar betur geta skoðað www.aifs.is.

(Neðri mynd úr einkasafni)
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024