Henning: „Besti leikur okkar í vetur“
„Besti leikur okkar í vetur“ sagði Henning Henningsson, þjálfari kvennaliðs Grindvíkinga, eftir góða ferð til Hafnarfjarðar í kvöld þar sem Grindvíkingar sendu bikarmeistara Hauka í sumarfrí með glæsilegum sigri 56-75. Grindavíkurstúlkur eru þar með komnar í úrslit og ræðst það á þriðjudag hvort þær fá Keflvíkinga eða Stúdínur í úrslitarimmuna.
Grindvíkingar komu virkilega vel stemmdar í leikinn í kvöld og staðráðnar í að útkljá rimmuna. Þær náðu 11 stiga forskoti eftir fyrsta leikhluta 14-25. Grindvíkingar gengu á lagið og juku forskot sitt og staðan í hálfleik var 34-48.
Haukar náðu aldrei að saxa forskotið eftir það niður fyrir tíu stig og staðan eftir þriðja leikhluta 46-59 Grindvíkingum í vil. Grindvíkingar voru betri en Haukar nánast allan leikinn í kvöld og uppskáru þægilegan sigur 56-75.
Rita Williams var að spila vel fyrir Grindvíkinga í kvöld. Hún skoraði 36 stig og var með 11 fráköst. Svandís Sigurðardóttir átti ljómandi kvöld, hún var með 14 stig og hirti 15 fráköst. Sólveig Gunnlaugsdóttir var með 9 stig, Ólöf Pálsdóttir 6. Erla Reynisdóttir var með 5 stig og 6 stoðsendingar í kvöld og nafna hennar Erla Þorsteinsdóttir var einnig með 5 stig og 5 stoðsendingar.
Ebony Shaw var atkvæðamest fyrir Hauka með 24 stig og 14 fráköst. Helena Sverrisdóttir var með 18 stig, 16 fráköst og 6 stoðsendingar og Pálína Gunnlaugsdóttir var með 7 stig.
Henning Henningsson var mjög sáttur í leikslok og sagði þetta hafa verið þægilegan sigur „Þetta var aldrei spurning, þær mættu virkilega tilbúnar í leikinn og staðráðnar í að klára þetta í kvöld 2-0, Haukaliðið er gott og það er ekkert þægilegt að fara í þriðja leikinn á móti þeim, þá getur allt gerst. Þetta var okkar besti leikur í vetur, mér sýnist hlutirnir vera að ganga upp á réttum tíma“. Henning segir það vera mikinn kost að lenda á móti Stúdínum í úrslitum því þá eiga Grindvíkingar heimaleikjarétt, en sagði þó að það myndi vera virkilega gaman að fá Suðurnesjaslag, „Ég hef í raun ekkert spáð mikið í hverja ég vill fá í úrslitin en okkur hlakkar rosalega til, við tökum létta æfingu á morgun og njótum þess svo að horfa á leikinn í Keflavík á þriðjudag“.
Fyrsti leikur Grindvíkinga í úrslitunum verður ekki leikinn fyrr en eftir páska, eða eftir um 10 daga.