Hemmi Hauks: Logi er þvílíkur leiðtogi
Býst við sigri KR í kvöld
Hermann Hauksson er vissulega KR-ingur með meiru en hann lék við góðan orðstír í Njarðvík í tvö tímabil. Þar vann hann bikarinn með liðinu eins og margir íbúar Reykjanesbæjar muna sennilega vel eftir. Sérfræðingurinn og snyrtipinninn úr Körfuboltakvöldinu telur að KR vinni oddaleikinn í kvöld þar sem Brynjar Björnsson mun fara fyrir röndóttum. Hermann segir Hauk Helga lykilmann fyrir Njarðvík en telur að Maciek geti þó skipt sköpum í leiknum.
„Ég held að KR vinni leikinn eftir mikinn barning og leikurinn vinnst á innan við sex stiga mun. Njarðvík þarf að fá þrjá til fjóra leikmenn í gang sóknarlega séð. Þá minnkar álagið af Hauki og fyrir vikið verða Njarðvíkingar miklu hættulegri. Haukur er náttúrulega lykilmaðurinn en ég tel Maciek x-faktorinn og hann mun stíga upp í þessum leik. Hjá KR mun Brynjar stíga upp enda þrífst á stórleikjum.“
Hermann hefur hrifist mjög mikið af leik Loga Gunnarssonar sem hefur leitt Njarðvíkurliðið áfram þrátt fyrir að vera að spila handarbrotinn í úrslitakeppninni. „Það sem mér finnst hafa staðið uppúr í þessari rimmu er hjartað og viljinn sem Logi er að sýna. Hann ætti ekki að vera að spila en er hendandi sér á eftir boltum og leggjandi línuna fyrir baráttu Njarðvíkinga, þvílíkur leiðtogi.“