Helgi segir skilið við Njarðvíkinga
Knattspyrnuþjálfarinn Helgi Bogason er hættur með Njarðvíkurliðið eftir að hafa verið í brúnni hjá grænum síðan í nóvember 2001.
Helgi hefur á þessum sex keppnistímabilum skilað miklu til deildarinnar og verið farsæll í starfi ásamt því að njóta virðingar leikmanna ómælt. Njarðvíkingar luku keppni í 8. sæti 1. deildar.
Síðasti leikur Helga með Njarðvíkurliðið var gegn Stjörnunni á föstudag og kvaddi hann Njarðvíkinga með 3-2 sigri í Garðabæ. Að leik loknum fékk hann svo veglegt steypibað, í öllum fötunum, frá leikmönnum liðsins.
Mynd: Leikmenn UMFN kvöddu Helga með því að bleyta aðeins upp í kallinum.