Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Helgi Jónas „Verður prófraun fyrir okkur“
Fimmtudagur 24. nóvember 2011 kl. 15:11

Helgi Jónas „Verður prófraun fyrir okkur“

Ætla Grindvíkingar að halda sigurgöngu sinni áfram í DHL-höllinni í kvöld? „Við erum svo sem ekkert að pæla of mikið í því hvað það séu komnir margir sigrar í röð. Við förum bara í hvern einasta leik með það markmið að vinna hann, sú gamla klisja gildir enn og það sem er búið er bara búið,“ segir Helgi Jónas Guðfinnsson, þjálfari Grindvíkinga en í kvöld munu lærisveinar hans sækja KR-inga heim í toppslag Iceland Express-deild karla í körfubolta þar sem liðin í fyrsta og þriðja sæti deildarinnar mætast.

„Við erum með mjög góðan og breiðan hóp en samt eru margir leikmenn sem eiga mikið inni. Þó svo að við höfum verið að landa sigrum þá vil ég meina að við höfum ekki verið að spila okkar allra besta leik enn sem komið er, við höfum bara gert það sem hefur þurft að gera,“ segir Helgi en Grindvíkingar hafa ekki enn tapað leik á tímabilinu og eru núverandi meistarar meistaranna.

Nóg af mönnum sem geta stigið upp

Helgi segir það jákvætt hve margir séu að sjá um stigaskorun og að álagið leggist ekki á fáa leikmenn. „Við erum með það sterkan hóp og marga leikmenn sem geta skorað. Maður hefur því ekkert of miklar áhyggjur af því ef einhverjir séu kaldir, því þá er til nóg af mönnum sem geta stigið upp. Helgi segir liðið jafnframt vera að innleiða nýjan sóknarleik og að það taki menn mislangan tíma að venjast því.“ Hann segir einnig að liðið hafi verið að spila fína vörn og hafi margir leikir unnist á vörninni. Grindvíkingar hafa verið að fá á sig fæst stigin í deildinni eða 73,5 stig að meðaltali í leik. Næstir koma Keflvíkingar sem fá á sig 81 í leik.

Lið Grindvíkinga er mikið breytt frá því í fyrra og liðið því enn í mótun. „Þetta á kannski eftir að smella saman hjá okkur. Það koma svona kaflar hjá okkur þar sem að sóknarleikurinn er að ganga þokkalega hjá okkur, en svo koma alltof stórir kaflar hjá okkur þar sem sóknarleikurinn er frekar stirður,“ segir Helgi. „Maður vissi svo sem að það tæki einhvern tíma. Maður vonar svo bara að þegar allt smellur saman þá verðum við ennþá erfiðari viðureignar fyrir önnur lið.“

Varðandi leikinn í kvöld þá líst Helga vel á það að mæta KR-ingum og hlakkar hann mikið til. „Við höfum ekki beint verið að spila við toppliðin að undanförnu og vonast eftir því að menn séu búnir að vera að bíða eftir svona, alvöru leik ef svo mætti segja. Þetta verður góð prófraun fyrir okkur.“

Blaðamaður getur ekki sleppt Helga án þess að minnast á leik hans fyrir lið ÍG að undanförnu en Helgi hefur farið á kostum með liðinu í 1. deildinni. „Það hefur gengið alveg ágætlega,“ segir Helgi hógvær en hann hefur verið að setja um og yfir 30 stig í leik að undanförnu. „Æfingarnar eru að skila sér, maður er að æfa mjög mikið,“ segir Helgi í gríni en hann spilar þegar hann hefur tíma til enda er hann afar upptekinn maður. „Það er mjög gaman að taka þátt í þessu og þetta eru allt strákar sem maður þekkir vel. Gummi Braga er í þrusuformi þarna en gamli heldur sér vel við. Ég er alveg viss um að hann gæti skilað okkur einhverjum mínútum í úrvalsdeildinni. Ef það verða einhver meiðsli hjá okkur er aldrei að vita nema ég hói í kallinn,“ segir Helgi léttur að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024