Helgi Jónas: Varð að velja og hafna
„Ég er í ansi mörgu og þetta eru verkefni sem mig langar að einbeita mér 100% að,“ segir Helgi Jónas Guðfinnsson sem lét af störfum sem körfuknattleiksþjálfari Grindvíkinga í gær. Helgi er einnig styrktarþjálfari en hann hannaði Metabolic hópaþrektíma sem hafa notið gífurlegra vinsælda að undanförnu. Það verkefni er orðið fremur stórt en auk þess er Helgi með puttana í mörgu öðru, m.a. er hann kennari hjá Keili í einkaþjálfaranámi.
„Þetta hefur allt aukist gríðarlega frá og með áramótum og í raun orðið alger sprenging. Ég gerði mér enga grein fyrir því þegar ég fór af stað með hóptíma í Metabolic að þetta ætti eftir að vera á fimm stöðum á endanum. Ég spurði sjálfan mig hvar ég fengi mesta ánægju og á endanum var það fyrirtækið sem ég er að reyna að byggja upp sem varð ofaná,“ Helgi segir að þó svo að vel hafi gengið í körfunni í vetur þá sé starfið krefjandi og taki gríðarlegan tíma. „Maður er ekki bara á æfingum í rúman klukkutíma. Það er alltaf verið að hugsa um körfubolta. Það er ekki eins og mér þyki leiðinlegt að starfa við körfuboltann, ég varð bara að velja og hafna,“ en Helgi segist svo ekki vera viss hvort hann fái aftur möguleika á því að þjálfa. „Það er ekkert gefið að ég fái tækifæri aftur. Ég hef þó verið tengdur körfunni allt mitt líf og aldrei að vita hvort maður snúi aftur.“
En kom þessi ákvörðun flatt upp á Grindvíkinga? „Ekki þeim sem stóðu mér næst. Aðra var kannski farið að gruna þetta en ég hafði hugsað þetta um stund. Annars held ég að þetta hafi komið fólki á óvart,“ en Helgi tilkynnti stjórn Grindvíkinga um ákvörðun sína á mánudag. Var ekkert erfitt að standa við þetta eftir að Íslandsmeistaratitilinn kom í hús? „Ég hugsaði þetta vel þegar fagnaðarlætin voru yfirstaðin. Ég sá bara fram á að geta ekki sinnt báðum störfum af fullum krafti,“ sagði Helgi að lokum.