Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Helgi Jónas íhugaði sjálfsvíg vegna vanlíðanar
Helgi Jónas þegar hann starfaði sem þjálfari.
Fimmtudagur 2. júlí 2015 kl. 15:10

Helgi Jónas íhugaði sjálfsvíg vegna vanlíðanar

Opnar sig í Facebook færslu.

„Mig hefur lengi langað að deila þessari sögu með ykkur en ég hef ekki þorað það. Ég hef ekki haft hugrekki til þess. Ég skammaðist mín. Með því að deila þessu á væri ég að sýna vanmátt minn. Það er ekki hægt þegar maður er íþróttmaður. Íþróttamenn mega ekki sýna nein veikleikamerki. Þeir eiga að vera hörkutól. Íþróttamenn eiga að harka af sér líkamlegan sársauka. Þeir fá svo meðhöndlun þegar sársaukinn er farinn yfir ákveðin mörk. Þeir eiga einnig að harka af sér andlegan sársauka en við honum fá þeir enga meðhöndlun,“ segir Helgi Jónas Guðfinnsson, fyrrum atvinnumaður í körfubolta, í Facebook færslu sem vakið hefur mikla athygli í netheimum.

Þakkar Sigurbergi Elíssyni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í færslunni þakkar Helgi Jónas knattspyrnumanninum Sigurbergi Elíssyni fyrir að stíga fram og segja sína sögu af þunglyndi og kvíða. Helgi Jónas segist hafa spilað stóran hluta ef ekki allan sinn feril í lélegu andlegu ástandi. „Hvernig ég kom mér í þetta ástand er nokkuð löng saga.“ Svo segir hann söguna og tilgreinir m.a. að hann hafi þurft að glíma við meiðsli í undirbúningstímabili í Belgíu 1998-1999. Þau hafi ekki varað lengi og hann hafi bæði orðið bikar- og Belgíumeistari og gerði tveggja ára samning. Tímabilið 2000-2001 hafi síðan breyst í martröð.

Deyfði tilfinningarnar með bjór og léttvíni

„Ég var ekki í náðinni hjá þjálfaranum. Fékk lítið eða ekkert að spila í sumum leikjum en svo 20+ mín í öðrum. Þetta var eitthvað sem ég var ekki vanur og byrjaði að taka mikinn toll af mér. Mér leið gríðarlega illa og vanlíða jókst eftir hvern einasta leik. Ég var farinn að íhuga að hætta en það gat ég ekki gert því ég gefst aldrei upp (þessi helv.... þrjóska).“ Helgi Jónas ákvað að harka þetta af sér og vildi ekki viðurkenna að hann væri löngu bugaður af vanlíðan. „Í lok janúar fór liðið á hausinn ég fékk ekki greidd laun mín síðustu 5 mánuðina af tímabilinu. Samningur sem ég hafði skrifað undir nokkrum mánuðum áður var gufaður upp. Mín hjálp í þessu ferli var að fá mér bjór og léttvín til þess að deyfa tilfinningarnar. Ekki var það góð lausn því eftir tímabilið var ég á mjög slæmum stað.“

Sökk dýpra og dýpra

Þegar belgíska landsliðið átti að spila á smáþjóðaleikunum var Helgi Jónas í engu standi til þess að spila. Hann gat þó ekki sagt nei þar sem hann var samningslaus og þurfti að sýna sig þar sem tímabilið á undan hafið verið hrikalegt. „Þetta var ekki góð ákvörðun. Sjálfstraustið var ekki neitt og með hverju skotinu sem ég klikkaði á sökk ég alltaf dýpra og dýpra. Ef mig minnir rétt þá fyrir síðasta leikinn á smáþjóðaleikunum á móti Kýpur þá veiktist ég og spilaði ekki leikinn. Þegar ég lít til baka var þetta örugglega bara kvíðakast og hræðsla. Ég var svo hræddur við að sökkva ennþá dýpra.“
 
Íhugaði sjálfsvíg við Grindavíkurhöfn
 
Þegar Helgi Jónas samdi svo við Grindavík eftir að hafa klárað landsliðsverkefnið í Belgíu var hann í engu ástandi til þess að spila körfubolta og gekk hart að sér, meiddist og varð að hafna tilboði frá Frakklandi. „Í febrúar náði ég botninum. Ég gat ekki meira. Ég gleymi þessari kvöldstund væntanlega aldrei. Ég átti að fara á foreldrafund þar sem ég var að kenna 5. bekk (eða 6. bekk) í Grunnskóla Grindavíkur. Ég keyrði hins vegar bara framhjá skólanum og niður að höfn. Þar brotnaði ég algjörlega saman og þá kom upp hugsun sem hræddi mig mikið. Setning sem ég á aldrei eftir að gleyma: Á ég ekki bara að enda þetta núna?“
 
Helgi Jónas hugsaði þó að hann gæti ekki gert konunni sinni það og fór heim niðurbrotinn og örmagna. „Ég þurfti hjálp en kláraði tímabilið og á ég Friðriki Inga Rúnarssyni mikið að þakka. Hann er ekki bara frábær þjálfari heldur líka einstök persóna. Alltaf gat ég hringt í hann og spjallað. Það hjálpað mér mikið.“
 
Æfði eins og vitleysingur og líkaminn gaf sig
 
Skemmst frá að segja dró Helgi Jónas sig úr landsliðinu þar sem hann ætlaði að vera í fótbolta og fór endurnærður inn í það tímabil. „Ég var búinn að finna ánægjuna aftur og var kosinn besti leikmaður deildarinnar og ég hélt að allt væri á réttri leið. Ég æfði eins og vitleysingur, alltof mikið og að lokum gaf líkaminn sig. Ég var að gera þetta fyrir aðra, ekki sjálfan mig. Það má því segja að ég hætti á þeim aldri sem flestir blómstra.“ 
 
Andlegi þátturinn mikilvægari en sá líkamlegi
 
Skilaboð Helga Jónasar í færslunni eru sterk: „Ég get ekki sagt þetta nógu oft. Það má ekki gleyma andlegum undirbúningi. Hann skiptir miklu meira máli heldur en sá líkamlegi. Ekki bara fyrir íþróttina heldur líka fyrir lífið sjálft. Það þarf að kenna íþróttamönnum að takast á við neikvæðar og jákvæðar aðstæður. Það þarf að kenna þeim að leyfa ekki tilfinningum og ytri aðstæðum að stjórna því hvernig þeim líður. Það þarf að kenna þeim hvernig á að takast á við lífið þegar ferlinum líkur því það er líf eftir íþróttina. Það er fullt af íþróttamönnum sem glíma við þunglyndi af einhverjum toga. Það er ekki hægt að líta framhjá þessu. Vítahringurinn eða ferlið getur byrjað á saklausan hátt og ef ekkert er gert verður þetta eins og snjóbolti sem rúllar niður brekku, hann stækkar og stækkar.“