Helgi: Er með ungt og efnilegt lið í höndunum
Helgi Arnarson þjálfari knattspyrnuliðs Njarðvíkur mun tefla fram ungu og efnilegu Njarðvíkurliði í 1. deildinni á næstu leiktíð. Hann hefur í undanförnum leikjum látið yngri leikmenn Njarðvíkurliðsins mæta stórliðum í æfingaleikjum og kveðst hann ánægður með framlag sinna ungu manna. Njarðvíkingar náðu að tryggja sæti sitt í 1. deild á síðustu leiktíð og segir Helgi að Njarðvíkingar ætli ekki að gefa það sæti eftir í sumar.
,,Alfreð Jóhannsson og Albert Sævarsson hafa róið á önnur mið, Snorri Már Jónsson og Marteinn Guðjónsson eru hættir en við erum með ungt og efnilegt lið. Gestur Gylfason verður áfram með okkur en hann er algjör lykilmaður í Njarðvíkurliðinu núna og er í ótrúlegu formi miðað við aldur,” sagði Helgi í samtali við Víkurfréttir.
Framherjinn ungi og efnilegi Ísak Þórðarson hefur vakið verðskuldaða athygli að undanförnu en nýverið gerði hann fjögur mörk fyrir Njarðvík gegn Reyni þegar Njarðvíkingar skelltu Sandgerðingum 7-2 í æfingaleik liðanna. ,,Ísak er búinn að skora í hverjum einasta æfingaleik hjá okkur og þar er mjög efnilegur leikmaður á ferðinni. Þá verður Ingvar Jónsson aðalmarkvörður hjá okkur í sumar en hann er í æfingahópi U 19 ára landsliðsins. Það er erfitt fyrir svona unga menn að spila sem aðalmarkmenn í 1. deildinni en ég treysti honum fullkomnlega í verkefnið,” sagði Helgi sem þjálfaði Njarðvíkinga árin 1996-98 í 3. deildinni.
,,Þetta er mitt fyrsta ár sem aðalþjálfari Njarðvíkur í 1. deild og mikil áskorun. Við þurftum að hafa mikið fyrir sæti okkar í deildinni í fyrra og þyrftum helst að
Hvað varðar leikmannamálin, þurfa Njarðvíkingar að bæta við sig leikmönnum fyrir komandi leiktíð?
,,Ég á von á því að við styrkjum liðið okkar með 2-3 leikmönnum en hvort það verði erlendir eða íslenskir leikmenn skal ég ekki segja til um. Það eru ekki margir leikmenn hér heima sem eru á einhverri hreyfingu en þegar líða tekur á vorið reikna ég með því að það verði hreyfing á leikmannamarkaðinum. Við erum þannig klúbbur að við leggjum áherslu á að nota þann efnivið sem við erum að byggja upp og við ætlum ekki auðveldu leiðin með því að kaupa okkur hálft lið til viðbótar við hópinn.”
Rafn Markús Vilbergsson sleit krossbönd síðasta sumar en er þegar byrjaður að skokka og allt gengur samkvæmt áætlun á þeim bænum segir Helgi. ,,Ég reikna með því að Rafn verði klár í átökin í byrjun júní,” sagði Helgi og kvaðst spenntur fyrir fótboltasumrinu sem er framundan.
VF-Mynd/ [email protected] - Rafn í baráttunni gegn Fjölni síðasta sumar. Hann ætti að verða klár í slaginn með Njarðvík einhvern tíman í júní segir Helgi Arnarson þjálfari Njarðvíkinga.