Helena heit í Haukasigri
Haukakonur höfðu góðan 95-84 sigur á Keflavík í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Haukar voru ávallt skrefinu á undan í leiknum en Keflavík var þó aldrei langt undan. Haukar eru því á toppi deildarinnar með 28 stig en Keflavík er í 2. sæti með 24 stig. Bæði lið spiluðu ákafar varnir en Haukar voru yfirvegaðri aðilinn í leiknum og refsuðu Keflavík í hvert skipti sem þær stigu feilspor.
Ifeoma Okonkwo gerði fyrstu stig leiksins en Svava Stefánsdóttir svaraði að bragði fyrir Keflavík. Haukar pressuðu eftir hverja skoraða körfu og unnu boltann oft og tíðum. Dómarar leiksins dæmdu fyrstu sex villurnar á Keflavík og tæpar sjö mínútur voru liðnar af leikhlutanum þegar fyrsta villan var dæmd á Hauka. Hnífjafnt var þó á milli liðanna en Haukar leiddu að loknum leikhlutanum 22-20.
Strax í upphafi annars leikhluta fékk Svava Stefánsdóttir sína þriðju villu hjá Keflavík og hélt á bekkinn. Haukar leiddu áfram en Kara Sturludóttir jafnaði leikinn í 28-28 og í næstu sókn komst Keflavík í fyrsta sinn yfir í leiknum 28-30. Adam var þó ekki lengi í Paradís og frábær lokakafli Hauka í leikhlutanum sendi liðin inn í hálfleik í stöðunni 48-37 Haukum í vil. Helena Sverrisdóttir fór mikinn síðustu mínúturnar í hálfleiknum þar sem hún gerði m.a. 6 stig í tveimur sóknum, skoraði og í bæði skiptin var brotið á henni og setti hún vítaskotin niður af öryggi.
Þriðji leikhluti var algjör martröð fyrir Keflavíkurkonur þar sem allt gekk upp hjá Haukum og Keflvíkingar virtust einfaldlega fara á taugum. Skyndilega var munurinn á liðunum kominn í 17 stig, 56-39, og þann mun er erfitt að vinna upp á Ásvöllum. Keflavík náði engu að síður að saxa á forskotið og var staðan 71-64 fyrir loka leikhlutann.
Ifeoma Okonkwo skaut Hauka í stuð í upphafi fjórða leikhluta með þriggja stiga körfu og staðan því 74-64. Keflavík náði ekki að komast inn í leikinn að ráði því svo virtist sem Haukar gætu skoraði í hverri sókn. Svava Stefánsdóttir fékk snemma sína fimmtu villu hjá Keflavík og varð frá að víkja. Haukar voru yfirvegaðri aðilinn í leiknum og uppskáru samkvæmt því. Bæði lið léku fínan varnarleik í kvöld en Haukar refsuðu Keflavík grimmilega fyrir mistök í Keflavíkurliðinu.
Hjá Haukum var Helena Sverrisdóttir með 31 stig en TaKesha Watson gerði 23 stig í liði Keflavíkur. Watson lék með Keflavík í kvöld þrátt fyrir nokkuð óöryggi varðandi framhald hennar hér á landi en talið var að hún væri með rifinn liðþófa. Allt útlit er fyrir að hún verði áfram í herbúðum Keflavíkur. Þá var Ifeoma Okonkwo að leika vel í liði Hauka og María Ben átti fínan dag í liði Keflavíkur.