Héldu hreinu í stórsigri
Keflvíkingar eru nú í 2. sæti Landsbankadeildar eftir 3-0 sigur gegn KR á Keflavíkurvelli. Keflavík hefur 7 stig eftir 4 leiki og hefur unnið báða heimaleikina sína. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2004 sem Keflvíkingar ná að halda hreinu í deildinni.
Aðeins þrjár mínútur voru liðnar af leiknum þegar Guðmundur Mete spyrnti boltanum fram á Jónas Sævarsson, Jónas kom boltanum á vinstri kantinn þar sem Símun Samuelsen tók við honum og óð inn í teiginn. Skammt á hæla Símun kom Magnús Þorsteinsson og sýndi Símun mikla óeigingirni er hann renndi boltanum á Magnús sem lagði knöttinn í hægra hornið fram hjá Kristjáni Finnbogasyni í KR markinu. Keflavík 1-0 KR.
Skömmu síðar áttu gestirnir fína sókn þar sem Guðmundur Mete var enn á ferðinni og bjargði á marklínu. Eftir þetta færi KR róaðist leikurinn aðeins og voru liðin að þreifa fyrir sér fram að 21. mínútu þegar Guðmundur Steinarsson slapp inn í teiginn en varnarmenn KR náðu að komast fyrir skot hans.
Á 26. mínútu hefðu Keflvíkingar getað komist í 2-0 þegar Magnús Þorsteinsson fékk boltann eftir glæsilegt þríhyrningsspil við Daniel Servino en Magnús skaut hátt yfir og fór illa með gott tækifæri.
Liðin héldu til búningsklefa í stöðunni 1-0 en Daniel Servino lét strax að sér kveða í upphafi síðari hálfleiks er hann kom Keflavík í 2-0. Keflavík átti þá hornspyrnu sem KR-ingar hreinsuðu frá út á hægri kantinn og beint í fætur Servino sem lét vaða á markið og inn fór boltinn. Keflavík 2-0 KR.
Keflvíkingar voru mun grimmari í síðari hálfleik og yfirspiluðu KR á köflum en hægt og bítandi tókst KR-ingum að komast inn í leikinn og skapa sér nokkur ágætis færi.
Þegar um 15 mínútur voru til leiksloka voru Keflvíkingar komnir nokkuð aftarlega á völlinn og gestirnir færðu sig upp á skaftið. Kenneth Gustafsson, sem verið hefur meiddur hjá Keflavík það sem af er af tímabilinu, kom inn í lið Keflavíkur á 79. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar átti hann þátt í þriðja marki Keflavíkur.
Hár bolti kom inn í KR teiginn sem Kenneth áframsendi á Guðmund Steinarsson og Guðmundur fann kollinn á Símun sem skallaði boltann fram hjá Kristjáni sem sótti hann í þriðja sinn í netmöskvana. Keflvíkingar fögnuðu vel og innilega en markið kom á 81. mínútu og sigur Keflavíkur því í höfn.
Eins og áður segir eru Keflvíkingar í 2. sæti Landsbankadeildarinnar með 7 stig eftir fjóra leiki en KR er í 6. sæti með 6 stig eftir fjóra leiki.
Staðan í deildinn
VF-myndir/ [email protected]