Heitt í hamsi á Keflavíkurspjalli

Stuðningsmenn Keflavíkur hafa komið á þeim sið að hittast í Blue höllinni á laugardagsmorgnum og fara yfir málin í körfunni og fótboltanum. Vel hitnaði í kolunum í gær og þurfti hinn góðkunni kappi Jóhann Birnir Guðumundsson að ganga á milli manna þegar deilt var um árangur knattspyrnuliðsins í sumar.

Allt róaðist að lokum en um var að ræða tvo heita stuðningsmenn Keflavíkur sem sættust á að mæta aftur að viku liðinni og fara þá betur yfir málin. „Menn bara gjörsamlega misstu sig í umræðunni og það er greinilegt að Keflavíkurhjartað slær og mönnum er ekki sama um liðið sitt, hvort sem um er að ræða fótbolta eða körfu. En við verðum betri með því að tala saman og það er gott að fá að heyra sjónarmið stuðningsmannanna, þótt þeir sjálfir séu oft langt frá því að vera sammála. Þannig verðum við betri. Ég vil hvetja alla til að mæta og tjá sig, eða bara hlusta á hina. Heitt kaffi á könnunni og meðlæti. Fullkominn laugardagsmorgun“, sagði Jónas Guðni Sævarsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar Keflavíkur.