Heimsfrægir þjálfarar kenna hjá Keili
Dagana 22.-24. september verður stórt þjálfaranámskeið á vegum Heilsuskóla Keilis haldið á Ásbrú. Kennarar koma allir frá Bandaríkjunum. Michael Boyle og Charles Staley sem eru heimsþekktir á sviði styrktarþjálfunar, dr. Christopher Mohr næringarfræðingur og dr. Kara Mohr æfingasálfræðingur. Á námskeiðinu verður farið í val á æfingum og hvernig æfingar skulu kenndar almenningi, djúpvöðvakerfið, ólympískar lyftingar og leiðir til að léttast út frá næringu og sálfræði.
Þátttakendur á námskeiðinu eru ýmist sjúkraþjálfarar, einkaþjálfarar, íþróttaþjálfarar eða íþróttafræðingar. Þetta er í þriðja sinn sem Heilsuskóli Keilis stendur fyrir Þjálfarabúðum af þessum mælikvarða , alltaf hafa um 100 þjálfarar tekið þátt og aðsóknin er ekki minni í þetta skiptið.
Michael Boyle og dr. Chris Mohr eru að kenna í annað skiptið á Þjálfarabúðum hjá Keili en þeir slógu í gegn hjá námskeiðinu haustið 2010. Boyle kennir fyrsta daginn á Þjálfarabúðunum og mun hann taka fyrir val á æfingum, stignun á æfingum og djúpvöðvakerfið. Æfingastöð Boyle var valin sú besta í Bandaríkjunum árið 2010 og íþróttamenn bíða í röðum eftir að fá að æfa undir hans leiðsögn. Dr. Chris Mohr kennir ásamt konu sinni dr. Kara Mohr heilan dag á Þjálfarabúðunum og munu þau taka „weight loss“ hugtakið fyrir, hann sem næringarfræðingur og hún æfingasálfræðingur. Íslendingar eru skv. nýjustu rannsóknum fjórða feitasta þjóðin í Evrópu svo mikið mæðir á þjálfurum að vinna með offeitt fólk og þar er gjarnan mest snúið að vinna með næringar- og sálfræðiþáttinn. Síðasta daginn kennir enginn annar en Charles Staley en hann er einna þekktastur fyrir að hafa fundið upp EDT þjálfun (Escalating density training). Á Þjálfarabúðunum kennir Staley ólympískar lyftingar en hann keppir sjálfur enn í þeim, núna 52ja ára gamall og kennir þær út um allan heim. Ólympískar lyftingar hafa verið mjög algengar á Íslandi hjá íþróttamönnum en eru núna, með tilkomu Cross Fit sérstaklega, orðnar algengari hjá venjulegu fólki í þjálfun. Lyfturnar eru umdeildar og tæknilegar og Staley kemur með ferska sýn fyrir þjálfara sem vilja eða eru að notast við ólympískar lyftingar.
Heilsuskóli Keilis hefur verið í fararbroddi endurmenntunar fyrir þjálfara samhliða því að kenna vinsælt og krefjandi einkaþjálfaranám.
Allar upplýsingar um Þjálfarabúðirnar eru að finna á heimasíðu Keilis www.keilir.net.