Heimavöllurinn þarf að skila Keflavík fleiri stigum
Keflavík fær KR í heimsókn í kvöld í Pepsi-deildinni í knattspyrnu.
„Heimavöllurinn hefur verið ákveðin vonbrigði undanfarið eitt og hálft ár, það þarf að breytast,“ segir Zoran Ljubicic, þjálfari Pepsi-deildarliðs Keflavíkur í knattspyrnu en Keflavík fær KR í heimsókn á Nettó-völlinn í kvöld kl. 19.15 í annarri umferð deildarinnar.
Zoran vonast til þess að áhorfendur láti sjá sig en stuðningur þeirra er liðinu mikilvægur. „Þetta eru strákar sem leggja sig 100% fram í hverjum einasta leik fyrir félagið. Þeir þurfa þó á stuðningi að halda sama hvernig gengur.“
Varðandi spár fjölmiðla vill Zoran sem minnst segja. „Okkur gekk t.d. mjög vel á undirbúningstímabilinu í fyrra og þá var okkur spáð falli. Nú gekk okkur ekki svo vel þar sem mikið var um meiðsli og því margir ungir leikmenn að fá tækifæri.“ Zoran segist lítið taka mark á spám fjölmiðla og eina leiðin til þess að afsanna þessar spár sé að að láta verkin tala. „Eina leiðin fyrir leikmenn að láta rödd sína heyrast er inni á fótboltavellinum, ég get öskrað á hliðarlínunni en það gerir víst lítið. Við þurfum hins vegar ekki að hugsa um þetta en virðum engu að síður skoðanir fjölmiðla,“ segir þjálfarinn. Varðandi ungu leikmenn Keflvíkinga þá segir Zoran að þeir eigi vafalaust eftir að fá tækifæri með Keflvíkingum í sumar. „Þeir þurfa bara að vera þolinmóðir og bíða eftir rétta tækifærinu, en ég er viss um að þeir fá að láta ljós sitt skína.