Heimavöllur Grindavíkur verður HS Orku höllin
Körfuknattleiksdeild Grindavíkur og HS Orka hafa gert með sér samkomulag um að heimavöllur Grindavíkur muni verða nefndur HS Orku-höllin næstu þrjú árin hið minnsta. Samningurinn var undirritaður af Jóni Júlíusi Karlssyni, framkvæmdastjóra Ungmennafélags Grindavíkur, og Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra HS Orku.
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku: „Höfuðstöðvar HS Orku eru í Svartsengi í Grindavík og við erum mjög ánægð með það hjá HS Orku að gera þennan samning við körfuboltadeildina í Grindavík. Við viljum vera öflugur bakhjarl í okkar nærsamfélagi og styðja við það góða starf sem þar er unnið. Körfuboltadeildin í Grindavík er til fyrirmyndar í sínu starfi með öflug lið og kraftmikið barna- og unglingastarf sem íbúar bæjarins geta verið stolt af.“
„Það er frábært fyrir körfuboltadeildina að fá svona öflugan bakhjarl eins og HS Orku í aukið samstarf með okkur. Við rekum mjög metnaðarfullt starf hér í Grindavík og til að það gangi upp er stuðningur fyrirtækja nauðsynlegur. Sérstaklega á þessum tímum þegar við spilum fyrir tómri höll og verðum af tekjum vegna aðgangseyris. HS Orka er eitt af stærri fyrirtækjunum í Grindavík og á Suðurnesjunum öllum og hafa sýnt það í gegnum árin að þau eru alltaf klár að styðja við bakið á samfélaginu. Við hlökkum mikið til þess að spila fyrir fram áhorfendur aftur í troðfullri HS Orku-höllinni,“ segir Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri Ungmennafélags Grindavíkur.