Heimavallardraugurinn skæður í Grindavík
Heimavallardraugurinn gerir ennþá vart við sig í Grindavík og í kvöld hrellti hann heimamenn svo svakalega að þeir vilja án efa gleyma leiknum sem fyrst. Grindvíkingar tóku á móti KR-ingum í 2. umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu.
Heimamenn byrjuðu betur og fyrstu mínútur leiksins var allt útlit fyrir að Grindvíkingar ætluðu að sýna KR-ingum verðuga keppni. Það voru hins vegar ekki liðnar margar mínútur þar til KR-ingar snéru við blaðinu og sóttu stíft á mark Grindvíkinga. Fjölmörg skot að marki en inn fór botlinn ekki fyrr en á 42. mínútu þegar Gunnar Örn Jónsson skoraði eftir góða sendingu frá Jónasi Guðna Sævarssyni. Hálfleiksstaðan 0-1 og ýmsilegt átti eftir að gerast í síðari hálfleik.
Eftir stundarfjórðungs leil í síðari hálfleik haf Gunnar Örn Jónsson knöttinn fyrir markið á Jardao Diogo sem skoraði. Þriðja mark KR kom svo átta mínútum síðar þegar Prince Rajcomar skoraði eftir sendingu frá Óskari Erni Haukssyni.
Þrátt fyrir að staðan væri orðin vonlaus fyrir Grindavík þegar hér er komið við sögu er samt fjör í leiknum. Í uppbótartíma verður síðan Marko Valdimar Stefánsson fyrir því að brjóta á KR-ingnum Guðmundi Péturssyni og réttilega dæmd vítaspyrna sem Björgólfur Takefusa skorar úr af öryggi.
Íslandsmótið er rétt að byrja en Grindvíkingar hafa þurft að sætta sig við tap í báðum leikjum sínum til þessa og fengið á sig sjö mörk en skorað eitt. Eysteinn Húni Hauksson sagðist í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn mjög ósáttur við leikinn og niðurstaða hans væri langt frá þeim markmiðum sem leikmenn settu sér fyrir leik.
Myndband með svipmyndum úr leiknum og viðtali við Eystein Húna verður sett inn á vf.is í fyrramálið, föstudagsmorgun.
Ljósmyndasyrpa úr leiknum á vf.is á föstudagsmorgun. Meðfylgjandi ljósmyndir tók Hilmar Bragi Bárðarson á leiknum í kvöld.