Heimasigur í Ljónagryfjunni
Njarðvík vann góðan sigur á grönnum sínum í Keflavík í gær, 82-68, í Reykjanesmótinu í körfuknattleik.
Njarðvíkingar voru með frumkvæðið mestallan leikinn fyrir utan stuttan kafla í öðrum leikhluta þegar Keflvíkingar skoruðu 10 stig í röð og komust yfir. Njarðvík komst aftur yfir rétt fyrir hálfleik.
Fátt gekk upp í sóknarleik Keflvíkinga í seinni hálfleik en Jeb Ivey, bandaríkjamaðurinn í liði Njarðvíkur fór á kostum og skoraði 33 stig í leiknum og var langbesti maður vallarins. Keflvíkingar voru að leika með tvo nýja erlenda leikmenn, þá Zlatko Gocevski og Jason Kalsow, en þeir höfðu komið deginum áður og varla sanngjarnt að meta frammistöðu þeirra þess vegna.
Það er ekki ofsögum sagt að hinn margumtalaði haustbragur hafi verið á liðunum báðum, en meistarar Keflavíkur eiga mun meira inni en þeir sýndu í gær.
Ivey var stigahæstur Njarðvíkinga eins og áður sagði, en Friðrik Stefánsson kom honum næstur með 17 stig og 14 fráköst.
Hjá Keflavík var Gocevski með 14 stig sem komu öll í fyrri hálfleik og þar á eftir kom Magnús Gunnarsson með 13 og Kalsow með 11.
Næsti leikur í mótinu er á þriðjudag þegar Grindavík tekur á móti Keflavík.
VF-Mynd/Þorgils