Heimasigrar hjá Keflavík og Grindavík
Keflavík og Grindavík eru komin í undanúrslit í Powerade-bikar kvenna eftir góða heimasigra í gærkvöldi. Keflvík vann stóran sigur á Snæfelli í Toyotahöllinni í Keflavík 114-72, þar sem Pálína Gunnlaugsdóttir gerði 20 stig. Bryndís Guðmundsdóttir var þar að leika sinn fyrsta alvöru leik í langan tíma, en hún sleit krossbönd á síðasta ári.
Grindavík hafði betur gegn Hamar í Röstinni 91-85. Tiffany Roberson var atkvæðamest hjá gulum með 26 stig, tók 12 fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Petrúnella Skúladóttir kom næst með 22 stig.
Bæði þessi lið verða í eldlínunni á fimmtudaginn þegar leikið verður í undanúrslitum. Keflavík tekur á móti Haukum í Toyotahöllinni í Keflavík kl. 19:00, en kl. 21:00 fer Grindavík í Vesturbæinn og etur kappi við KR.
VF-Mynd/JBÓ: Pálína Gunnlaugsdóttir var í stuði gegn Snæfelli í gærkvöldi.