Heimaleikir hjá Njarðvík og Keflavík
Fjórir leikir eru á dagskrá í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld og hefjast þeir allir kl. 19:15. Í Njarðvík taka heimamenn á móti botnliði Hamars og nýliðar Stjörnunnar heimsækja topplið Keflavíkur í Sláturhúsið. Snæfell og Skallagrímur mætast í Stykkishólmi og Þór Akureyri tekur á móti Tindastól.
Með sigri í kvöld geta Keflvíkingar að nýju komið sér einir á topp deildarinnar en Stjörnumenn hafa fengið nýjan Bandaríkjamann til liðs við sig sem virðist hafa fært aukið sjálfstraust í Garðbæinga. Stjarnan hafði góðan sigur gegn Njarðvík í síðustu umferð en Keflavík lá gegn KR í Vesturbænum. Gegn KR tók það þá Bobby Walker og Tommy Johnson heilar 24 mínútur að gera sín fyrstu stig en það veit ekki á gott í kvöld ef þeir Walker og Johnson ætla að vera aftur jafn lengi í gang.
Njarðvíkingar hafa undanfarið leikið án miðherjans Egils Jónassonar sem nýverið fór í aðgerð við meiðslum í hné. Hann er þó væntanlegur aftur í raðir Njarðvíkinga á næstunni en verður að öllum líkindum ekki með í kvöld. Hamarsmenn eru á síðasta séns og ætli þeir sér að halda sæti sínu í deildinni koma fátt annað en sigrar til greina í næstu leikjum.
VF-Mynd/ [email protected] - Damon Bailey verður í eldlínunni með Njarðvík gegn Hamri í kvöld.