Heimaleikir hjá Keflavík um helgina
Kótilettuveisla á Réttinum fyrir leikinn gegn Leikni F.
Knattspyrnuliðum Keflavíkur hefur gengið vel í ár, kvennaliðið hefur þegar tryggt sér sæti á efstu deild og karlaliðið er á toppi Lengjudeildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir.
Eins og gengur og gerist eykst áhugi stuðningsmanna þegar vel gengur og því hafa forsvarsmenn Keflavíkur fundið fyrir. Víkurfréttir heyrðu í Jónasi Guðna Sævarssyni, framkvæmdastjóra knattspyrnudeildarinnar, og spurðu hann út í stöðuna.
„Jú, það er búin að vera mjög góð stemmning í kringum liðin okkar í sumar – enda hafa bæði lið verið að spila mjög skemmtilegan fótbolta og gengið vel,“ segir Jónas Guðni.
Takmarkanir á leikjum
Íþróttafélög hafa þurft að bregðast við breyttum aðstæðum vegna veirufaraldursins og aðspurður segir Jónas að vegna fjöldatakmarkana sé áhorfendasvæðinu skipt í tvö hólf sem hvort tekur 200 manns.
„Það er gengið inn í Keflavíkurhluta stúkunnar frá Sunnubraut og ef það fyllist þurfa áhorfendur að ganga inn frá Hringbraut en þar er einnig miðasala og inngangur í hluta gestaliðsins.
Einhverjir þurftu að gera það í síðasta leik, þegar við tókum á móti ÍBV, og vera í gestahluta stúkunnar. Það er því vissara að mæta tímanlega á völlinn.“
Þakklæti til stuðningsmanna
„Við höfum fundið mjög jákvæða strauma frá stuðningsmönnum okkar í sumar og fyrir það erum við þakklát.
Við höfum ekki getað gert eins mikið og við hefjum viljað með stuðningmönnum í sumar og því ætlum við að blása til kótilettuveislu fyrir leikinn á morgun. Það verða Keflavíkurkótilettur með öllu á boðstólum í samstarfi við Réttinn frá klukkan tólf og við hvetjum alla stuðningsmenn til að mæta með félögunum og fá sér lettur og kalda drykki áður en arkað er saman upp á Nettóvöll. Rétturinn getur tekið á móti 150 manns í einu og verði er stillt í hóf, 2.500 kr. fyrir kótilettur og gos en 3.000 ef fólk fær sér bjór í staðinn fyrir gosið,“ segir Jónas Guðni og bætir við:
„Stelpurnar leika svo á sunnudaginn og þá munu þær fagna sæti í Pepsi Max með stuðningsmönnum sínum svo ég hvet alla sanna Keflvíkinga til að mæta þá og samgleðjast stelpunum.“