Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Heildarhagsmunir félagsins að leiðarljósi
Föstudagur 15. janúar 2016 kl. 22:25

Heildarhagsmunir félagsins að leiðarljósi

Yfirlýsing frá Keflvíkingum

Stjórn körfuknattleiksdeildar Keflavíkur hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna brottrekstrar Margrétar Sturlaugsdóttur. Þar kemur fram að brottreksturinn hafi átt sér langan aðdraganda og hafi ekki komið til vegna þrýstings frá ákveðnum leikmönnum eins og Margrét hefur sjálf sagt í fjölmiðlum.

„Þjálfari liðsins var ekki látin fara frá félaginu vegna eins tiltekins atviks, vegna þess að einn eða tveir leikmenn voru ósáttir við hennar störf eða vegna þess að leikmenn hótuðu að hætta. Málið er mun flóknara og á sér lengri aðdraganda. Það að halda því fram að stjórn KKDK hafi látið stjórnast einvörðungu af afstöðu tveggja leikmanna eða ákveðið að taka afstöðu með tveimur leikmönnum á kostnað heildarinnar á ekki við rök að styðjast,“ segir m.a. í tilkynningunni. Málið er sagt sérstaklega viðkvæmt þar sem leikmenn liðsins séu börn eða mjög ungir að aldri. Ákveðið var að hlífa leikmönnum frá umfjöllunum sökum þess.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í tilkynningu er talað um samskiptaörðugleika milli leikmanna og þjálfara. „Þegar svo leikmenn, sem æft hafa körfubolta með félaginu í mörg ár og eiga landsleiki að baki fyrir yngri landslið Íslands, ákveða að hætta í körfubolta er stjórn félagsins auðvitað skylt að staldra við og skoða málið nánar sem og hún gerði,“ segir ennfremur.

Margrét hefur tjáð sig um málið þar sem hún sakar stjórnina um að láta hana fara vegna þess að tveir leikmenn liðsins hafi verið ósáttir við hennar störf. Í viðtali við Víkurfréttir gagnrýndi Margrét vinnubröð stjórnarinnar harkalega. „Ég hefði viljað betri vinnubrögð. Þeir töluðu aldrei við hina tólf leikmennina. Töluðu bara stuttlega við mig en meira við hinar geri ég ráð fyrir, það var svo tekin afstaða út frá því. Það er engin ástæða fyrir þessu nema sú að ég gat ekki ráðið byrjunarliðinu og öðru nema vera undir hælnum á ákveðnum leikmönnum,“ sagði Margrét í viðtali sem sjá má hér.

Yfirlýsingu stjórnar KKDK má sjá hér að neðan:
Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur (KKDK) tók á dögunum þá ákvörðun að þjálfari meistaraflokks kvenna myndi láta af störfum. Í kjölfarið ákvað stjórnin að tjá sig ekki frekar um málið þar sem stjórn KKDK er bundin trúnaði gagnvart þjálfurum og leikmönnum og ætlar að virða hann. Mál sem þessi eru yfirleitt mjög viðkvæm enda snerta þau ekki aðeins stjórn, þjálfara og/eða leikmenn umrædd liðs, heldur einnig fjölskyldur, vini og stuðningsmenn. Umrætt mál er meðal annars viðkvæmt í ljósi þess að leikmannahópur meistaraflokks kvenna er nánast eingöngu skipaður börnum og/eða mjög ungum stúlkum og var það því mat KKDK að best væri að hlífa þeim við frekari umfjöllun.

Sú staða hefur breyst í kjölfar þess að fyrrum þjálfari liðsins ákvað að koma fram í fjölmiðlum með sína hlið málsins, hlið sem stjórn KKDK er einfaldlega ekki tilbúin að kvitta fyrir. Er það því svo að stjórn KKDK sér sig nauðbeygða að koma ungum leikmönnum liðsins til varnar. Ekki er lengur hægt að sitja hjá á meðan hvað eftir annað er látið í veðri vaka, bæði í viðtölum við fyrrum þjálfara liðsins og á samfélagsmiðlum, að það hafi verið tveir ungir leikmenn liðsins sem hafi orðið þess valdandi að stjórn KKDK ákvað að segja upp Margréti Sturlaugsdóttur.

Stjórn KKDK vill að það komi skýrt fram að fyrrum þjálfari liðsins var ekki látin fara frá félaginu vegna eins tiltekins atviks, vegna þess að einn eða tveir leikmenn voru ósáttir við hennar störf eða vegna þess að leikmenn hótuðu að hætta. Málið er mun flóknara og á sér lengri aðdraganda. Það að halda því fram að stjórn KKDK hafi látið stjórnast einvörðungu af afstöðu tveggja leikmanna eða ákveðið að taka afstöðu með tveimur leikmönnum á kostnað heildarinnar á ekki við rök að styðjast. Þegar einn af bestu leikmönnum liðsins yfirgefur liðið að hausti, þegar óánægju fer að gæta meðal leikmanna, þegar greina má samskiptaörðugleika milli leikmanna og þjálfara og þegar svo leikmenn, sem æft hafa körfubolta með félaginu í mörg ár og eiga landsleiki að baki fyrir yngri landslið Íslands, ákveða að hætta í körfubolta er stjórn félagsins auðvitað skylt að staldra við og skoða málið nánar sem og hún gerði.

Sú erfiða ákvörðun sem tekin var í þessu máli var tekin með hagsmuni félagsins að leiðarljósi, þ.e. heildarhagsmunir félagsins voru á endanum það sem réði að mati stjórnar. Enginn kostur var góður í þeirri stöðu sem upp var komin og því sá stjórn KKDK í raun ekki aðra lausn á málinu en að láta þjálfarann fara.

Stjórn KKDK lítur svo á að með þessari yfirlýsingu sé málinu lokið af hennar hálfu. Nú fara í hönd mikilvægir leikir hjá liðinu með nýjum þjálfara í brúnni. Það er ósk stjórnar KKDK að stuðningsmenn liðsins geri það sem Keflvíkingar gera best og styðji stelpurnar til áframhaldandi góðra verka í leiknum sem við öll elskum!