Heil umferð í kvennaboltanum
Heil umferð fer fram í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik í kvöld þar sem Grindavíkurkonur geta náð toppsæti deildarinnar með sigri á Val í Röstinni í Grindavík. Þá taka Haukar á móti Fjölni að Ásvöllum og nýliðar KR fá Hamar í heimsókn í DHL-Höllina.
Valskonur komu nokkuð á óvart á dögunum er þær lögðu Keflavík í deildinni í spennuþrungnum og tvíframlengdum leik. Grindvíkingar eiga kost á því að komast einar á topp deildarinnar með sigri í kvöld og hafa gular leikið feiknavel að undanförnu og um helgina slóu þær KR út úr bikarnum svo það verður ekki hlaupið að því að sækja sigur í Röstina á næstunni. Leikurinn hefst kl. 19:15.