Heiður að vera valinn
Jónas Guðni Sævarsson var staddur á Reykjanesbrautinni þegar Víkurfréttir náðu tali af honum en þá var hann á heimleið til Keflavíkur að sækja sitt hafurtask því hann mun dvelja með íslenska landsliðinu á hóteli í Reykjavík í nótt. Eyjólfur Sverrisson valdi Jónas inn í landsliðshópinn fyrir leikinn gegn Svíum á morgun en þeir Veigar Páll og Helgi Valur verða ekki með.
„Þetta er stuttur fyrirvari en heiður að fá að mæta þarna með liðinu og auðvitað yrði frábært að fá leiktíma á morgun,“ sagði Jónas í samtali við Víkurfréttir. Jónas er enn í feiknaformi enda stutt síðan hann varð bikarmeistari með Keflavík. Hann sagði vissulega vera möguleika fyrir íslenska liðið á að leggja það sænska. „Ég veit reyndar ekkert hvernig mórallinn er í hópnum og það er erfitt að segja hver stemmningin er,“ sagði Jónas.
Jónas stundar nám við Háskóla Íslands og er á þriðja ári í verkfræði en hann var staddur í tilraun þegar hann fékk símtalið frá „kallinum í brúnni.“ „Við vorum í lektarprófi og ég þurfti bara að rjúka út og er núna á heimleið,“ sagði Jónas.
Eyjólfur veit upp á hár hvað hann er að fá frá Jónasi sem leikmanni en Eyjólfur þjálfaði m.a. U 21 árs liðið þegar Jónas lék þar og fylgdist einnig með honum í sumar í Landsbankadeildinni.
Fyrir hjá liðinu hittir Jónas gamlan liðsfélaga sinn, Stefán Gíslason en Stefán leikur með Lyn í Noregi. „Það verður gaman að hitta Stebba, ég hef ekki hitt hann síðan við (Keflavík) vorum að spila í Lillestrøm,“ sagði Jónas að lokum.
VF-mynd/ [email protected] - Jónas á Laugardalsvelli eftir 4-0 sigur Keflavíkur á Víkingum í undanúrslitum VISA bikarkeppninnar. Hver veit nema Jónas nái að smita Keflavíkurstuðið inn í landsliðið en Keflvíkingar virðast kunna vel við sig á þjóðarleikvanginum.