Heiðarskóli í úrslit í Skólahreysti
Holtaskóli í 2. sæti og Akurskóli þriðji í undanúrslitum. Holtaskóli á enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina.
Skólar úr Reykjanesbæ röðuðu sér í þrjú efstu sætin í sjötta undanriðli Skólahreystis í íþróttahúsinu í Smáranum í gær. Heiðarskóli endaði í efsta sæti en átta skólar af Suðurnesjum tóku þátt og jafn margir úr Hafnarfirði.
Keppnin var hörð og jöfn fram á síðustu mínútu en lið Heiðarskóla hafði sigur að lokum með 91 stig, eftir harða baráttu við Holtaskóla, og vann sér þátttökurétt í úrslitum 16. maí sem verður í beinni útsendingu úr Laugardalshöll. Lið Heiðarskóla skipa þau Andri Már Ingvarsson, Arnór Elí Guðjónsson, Elma Rósný Arnarsdóttir og Katla Rún Garðarsdóttir.
Holtaskóli varð í öðru sæti með 82,5 stig en í þriðja sæti var lið Akurskóla með 76,5 stig. Holtaskóli á ennþá möguleika á að komast í úrsit en þeir tveir skólar sem ná besta árangri í öðru sæti úr öllum undanriðlum komast í úrslitakepppnina.
Íþróttahúsið var fullt af litríkum stuðningsmönnum sem hvöttu sína skóla af krafti. Keppnin var tekin upp og verður sýnd í þáttum um Skólahreysti á RÚV á föstudagskvöldum í apríl. Skólahreysti er í boði Landsbankans.
Skólarnir sextán sem mættust í keppninni í gær voru Akurskóli, Áslandsskóli, Gerðaskóli, Grunnskóli Grindavíkur, Grunnskólinn í Sandgerði, Heiðarskóli, Holtaskóli, Hraunvallaskóli, Hvaleyrarskóli, Lækjarskóli, Myllubakkaskóli, Njarðvíkurskóli, Setbergsskóli, Stóru-Vogaskóli, Víðistaðaskóli og Öldutúnsskóli.