Heiðabúar á Ylfingamóti: Snyrtilegustu ylfingar landsins!
Lokapunkturinn á ylfingastarfi skátafélagsins Heiðabúa var settur helgina 9. – 11. júní síðastliðna en þá fóru átján ylfingar og sjö aðstoðarmenn á ylfingamót sem haldið var að Úlfljótsvatni, útilífsmiðstöð skáta.
Ylfingamótið hefur fest sig í sessi sem skemmtilegt og fjölbreytt mót þar sem yngstu þáttakendur í skátastarfinu fá að upplifa alvöru ævintýri.
Þessi helgi var viðburðarík og hlaðin dagskrá fyrir ylfinga. Heiðabúar mættu á svæðið seinniparts föstudag og fór föstudagskvöldið í það að koma upp tjaldbúð. Ylfingar sáu um að tjalda sínum tjöldum með aðstoð foringja og leit tjaldbúðin vel út að því loknu.
Að skátasið var laugardagurinn tekinn snemma og hófst dagurinn á hefðbundinn máta, tjaldbúðaskoðun, fánaathöfn og morgunmatur. Að öllu þessu loknu var ekki seinna en vænna að hefjast handa.
Dagskráin var mjög viðamikil, og innihélt hún allt það skemmtilega sem skátar gera, svo sem klifur, sig, vatnasafarí og margt fleira. Sumir ylfingana unnu þarna persónulega sigra á sjálfums sér, gerðu margir þeirra fjölda tilrauna til dæmis í að síga, þar til þau voru búin að yfirvinna hræðsluna.
Stundum var varla tími til að borða, en það gekk nú allt upp, vegna þess að skátarnir í eldhústjaldinu voru alltaf tilbúnir með matinn, búnir að smyrja allt brauð og hita allt, svo það var ekkert annað að gera fyrir ylfingana en að setjast að borðum, næra sig og að því loknu drífa sig síðan í næsta dagskrárlið
Veðrið á mótinu var hið þokkalegasta, að sjálfsögðu ringdi á ylfingana en skátar eru frægir fyrir að geta skemmt sér í rigningu og lét enginn það hafa áhrif á þá upplifun sem mótið var.
Heiðbúar voru með einn fjölmennasta ylfingahópin á svæðinu og það var mikið verk fyrir foringjana og ylfingana að halda tjaldbúðinni og tjöldunum þurrum og snyrtilegum en það var þó augljóslega mat mótsstjórnar að vel hafði til tekist því Heiðabúar unnu til verðlauna fyrir snyrtilegustu tjaldbúð mótsins á sunnudeginum, brottfaradeginum sjálfum.
Það voru örþreyttir, lífsreyndir og lífsglaðir ylfingar sem að komu heim seinnipart sunnudags eftir velheppnað ylfingamót á Úlfljótsvatni.
VF-myndir/ Kristinn Guðmundsson