Heiða Guðna Íslandsmeistari í holukeppni
- ákvað að pútta eins og barn í úrslitaleiknum, sagði Heiða
Keflavíkurmærin Heiða Guðnadóttir úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar fagnaði sigri í kvennaflokki á Íslandsmótinu í holukeppni í golfi sem lauk í blíðskaparveðri á Jaðarsvelli á Akureyri í dag. Heiða sigraði Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur úr GR í úrslitum 4/3.
„Ég kom sjálfri mér á óvart á þessu móti – og núna þorði ég að vinna,“ sagði Heiða eftir sigurinn en hún náði langt í fyrra í þessari keppni en tapaði þá fyrir systur sinni Karen Guðnadóttur úr Golfklúbbi Suðurnesja.
„Ég fann það bara í gær að ég gæti alveg unnið þetta og ég hafði trú á sjálfri mér. Ég hafði fyrir þetta mót aldrei sigrað á stigamóti. Það var gott að fá smá hvíld eftir undanúrslitaleikinn sem ég nýtti til þess að hlusta á tónlist og íþróttasálfræði út í bíl. Ég ákvað eftir lesturinn á íþróttasálfræðingnum Bob Rotella að pútta eins og barn. Börn eru aldrei hrædd við að pútta og ég var í þeim gír í allan dag. Aldrei hrædd og það skilaði árangri,“ sagði Heiða.
Heiða Guðnadóttir og Axel Bóasson úr Keili, Íslandsmeistarar í holukeppni í golfi 2015.