Hefur unnið 19 titla með Njarðvík
Rúnar Ingi Erlingsson, fyrirliði 10. flokks Njarðvíkinga, var að landa sínum 19. titli með 89' árganginum í körfuknattleik um helgina þegar Njarðvíkingar urðu Íslandsmeistarar. Rúnar var aðeins 5 ára þegar hann byrjaði að æfa og fljótlega eftir það fóru titlarnir að hrannast upp hjá honum. „Þetta byrjaði strax í minnibolta, þá sá maður að við vorum með flottan hóp. Sami kjarninn er búinn að vera að æfa saman síðan í minnibolta og höfum við lagt mikið á okkur. Við höfum verið að æfa fimm sinnum í viku í vetur og svo oft leikir með því. Síðasta sumar æfðum við þrisvar í viku í íþróttahúsinu og svo vorum við tvisvar í viku í Perlunni“ sagði Rúnar, en það verður lítið um sumarfrí hjá honum þar sem hann fer með U-16 ára landsliðinu ásamt fjórum öðrum félögum sínum úr liðinu til Svíþjóðar á Norðurlandamótið í maí og svo á Evrópumótið á Spáni í lok júlí, ásamt því að æfa með Njarðvík í sumar. Rúnar hinsvegar lifir og hrærist í körfubolta og er ánægður með að vera á stífum æfingum í sumar. „Svona á þetta að vera, þetta gerist ekki skemmtilegra“ sagði þessi unga skytta í samtali við Víkurfréttir.
Vf-mynd/Jón Björn - Rúnar Ingi með Íslandsmeistaratitlana