Hefur alltaf langað til að koma aftur
Sóknarmaðurinn Sævar Eyjólfsson hefur gert eins árs samning við 1. deildarlið Njarðvíkur og mun leika með liðinu í sumar. Sævar er markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi en kemur nú úr herbúðum ÍBV og mun leika í framlínu Njarðvíkinga í sumar.
Sævar á að baki 82 leiki með Njarðvíkingum og hefur hann gert í þeim 72 mörk. Sævar lék sinn síðasta leik með Njarðvíkingum árið 2001 gegn Völsungi frá Húsavík. Þessi gleðitíðindi fyrir Njarðvíkinga koma þó ekki áfallalaust fyrir félagið þar sem Eyþór Guðnason hefur hafið æfingar með HK og bendir allt til þess að hann klæðist ekki grænu í sumar.
,,Ég er búinn að æfa með liðinu núna í einn mánuð, við erum ekki með stóran hóp en þetta er engu að síður ágætis hópur. Það getur allt gerst hjá okkur ef menn verða heilir í sumar því álagið verður töluvert,” sagði Sævar. ,,Það verða þrjú lið sem fara upp í Landsbankadeildina og við stefnum bara sem hæst í þessu,” sagði Sævar en af hverju ákvað hann að snúa aftur í herbúðir Njarðvíkinga. ,,Mig hefur alltaf langað til að taka eitt tímabil til viðbótar með Njarðvík svo ég ákvað að drífa mig núna því ef ég hefði ekki farið núna hefði það líklega aldrei gerst,” sagði Sævar sem er 29 ára gamall og er nú staddur með Njarðvíkingum í Danmörku þar sem liðið hefst við í æfingaferð.
Mynd: Hafliði Breiðfjörð - www.fotbolti.net