Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hef verið stoltur að bera merki Keflavíkur á brjóstinu
Kristján Guðmundsson
Föstudagur 12. júní 2015 kl. 02:58

Hef verið stoltur að bera merki Keflavíkur á brjóstinu

Kristján Guðmundsson kveður stuðningsmenn Keflavíkur

Kristján Guðmundsson, fyrrum þjálfari Keflvíkur í knattspyrnu sendi Víkurfréttum bréf til stuðningsmanna liðsins:
 
Ágætu Keflvíkingar.
 
Í dag eru rúm 10 ár síðan ég settist fyrst upp í bíl í Garðabænum til að keyra Reykjanesbrautina og klæddi mig í þjálfaragalla merktum Keflavík.  Síðan þá hafa ferðirnar á brautinni verið nokkrar og vinnustundirnar enn fleiri.
 
Allan þann tíma hef ég verið stoltur af því að bera merki knattspyrnudeildar Keflavíkur á brjóstinu og af því verð ég áfram stoltur þrátt fyrir að stjórn deildarinnar hafi ákveðið að minna krafta væri ekki lengur óskað nú í liðinni viku.
 
Einn maður skiptir aldrei máli í knattspyrnu, heldur er það hópurinn sem er aðalmálið.  Fyrst að það var mat Keflavíkur að betur gengi með því að leysa mig úr brúnni þá tek ég þeirri ákvörðun og auðvitað tek ég ábyrgð á gengi liðsins og veit að þetta er algengasta leið út úr vanda knattspyrnuliða þegar úrslit eru ekki í samræmi við væntingar.
 
Ég hef frá upphafi starfs míns fyrir Keflavík hugsað um hag félagsins á hverjum tíma en líka reynt að byggja upp til framtíðar. Þrátt fyrir erfiða byrjun í mótinu þetta árið er ég þess algerlega fullviss að við þjálfarateymið hefðum snúið því gengi á réttan veg ef við hefðum fengið til þess tækifæri.
 
Það fór á annan veg og nú er það annarra að leysa það verk úr hendi.  Þeim aðilum óska ég alls hins besta og til hamingju með það að fá að vinna áfram þá vinnu sem grunnur hefur verið lagður að síðustu mánuði.  Í Keflavíkurliðinu býr kraftur og elja sem leikmenn þurfa að dusta rykið af og muna það að þeir einir bera ábyrgð á sjálfum sér.
 
Að lokum langar mig til að þakka fyrir það að hafa átt að vini margan snillinginn í Keflavíkinni.  Þar hafa orðið til vinabönd sem aldrei munu slitna og ekki hefur skuggi fallið á allan þennan tíma. Skuggi brottreksturs mun heldur ekki skaða þau bönd.  
 
Einnig vil ég senda senda stuðningsmönnum Keflavíkur sérstaka kveðju. Mér hefur alla tíð þótt vænt 
um samband mitt við þá og mun þykja það enn.  Ég bið ykkur að styðja lið ykkar í þeirri baráttu sem framundan er. 
 
Sá viðskilnaður sem varð milli mín og félagsins í síðustu viku var að sjálfsögðu sár og mér þungbær en þegar ryk hefur sest á þann atburð mun ég án nokkurs vafa ylja mér við margar góðar minningar úr því starfi sem er lengsta þjálfarastarf míns ferils.  Keflvísk knattspyrna mun alltaf eiga sess í minni sál.
 
Kristján Guðmundsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024