Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Hef miklar væntingar fyrir komandi mánuðum“
Sunnudagur 31. desember 2017 kl. 06:00

„Hef miklar væntingar fyrir komandi mánuðum“

Á sínum yngri árum lék Arnór Ingvi Traustason með yngri flokkum Njarðvíkur í knattspyrnu, hann fór síðan til Keflavíkur og lék með meistaraflokki fram til ársins 2014. Þá gekk hann til liðs við IFK Norrköping í Svíþjóð og náði góðum árangri með liðinu þar sem hann varð meðal annars sænskur meistari árið 2015. Sumarið 2016 skrifaði hann svo undir samning við Rapid í Vín en fór þaðan til Grikklands og lék með AEK í sumar. Þar fékk hann lítið af tækifærum með liðinu og er því á leiðinni til aftur til Svíþjóðar, en í þetta skipti til Malmö.

Arnór hefur leikið með íslenska landsliðinu í knattspyrnu og er undirbúningur fyrir HM í Rússlandi í fullum gangi þessa dagana en Arnór vill fá meiri spilatíma á vellinum vegna undirbúnings fyrir Heimsmeistaramótið. Arnór skrifaði á dögunum undir samninginn við Malmö og segist spenntur að takast á við það verkefni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Mér líður vel í Svíþjóð, ég kann á deildina eftir að hafa verið þar áður í um tvö og hálft ár. Malmö er stór klúbbur með mikla sögu, liðið er sterkt og er alltaf að berjast um titilinn.“

Arnór mun verja jólunum hér heima á Íslandi í faðmi fjölskyldunnar en eftir hátíðirnar taka við flutningar til Svíþjóðar þegar æfingar með nýju liði hefjast. „Væntingarnar eru alltaf miklar hjá Malmö og ég hef fundið fyrir því, þannig ég hef líka miklar væntingar fyrir komandi mánuðum.“