Hef alltaf verið Víðismaður
- segir Guðjón Árni Antoníusson, nýr þjálfari Víðis
Knattspyrnufélagið Víðir í Garði hefur ráðið Guðjón Árna Antoníusson sem þjálfara meistaraflokks félagsins út tímabilið. Guðjón Árni er fæddur og uppalinn í Garðinum og byrjaði sinn meistaraflokksferil með Víði árið 2000. Guðjón lagði skóna á hilluna í vetur og hefur verið í þjálfarateymi Keflavíkur síðan, ásamt því að þjálfa 2. flokk karla hjá Keflavík. Guðjón er menntaður íþróttafræðingur við Háskólann í Reykjavík og starfar sem íþróttakennari við Myllubakkaskóla í Keflavík. Guðjón Árni á yfir 240 leiki í efstu deild með Keflavík og FH. Guðjón varð Íslandsmeistari 2012 með FH og tvisvar bikarmeistari með Keflavík 2004 og 2006. Guðjón spilaði sem fyrirliði fyrir bæði liðin.
Hvernig leggst það í þig að taka við þjálfun á meistaraflokks Víðis?
„Það er mikil tilhlökkun að taka við Víði.“
Af hverju ákvaðstu að taka við Víðisliðinu?
„Víðismenn voru þjálfaralausir og ég var kominn í þjálfaragírinn eftir að hafa lagt skóna á hilluna fyrr á þessu ári. Þannig ég lít á þetta sem spennandi tækifæri.“
Var langur aðdragandi að þessu?
„Nei. Ég fékk símtal, hitti fólkið og þurfti ekki lengri tíma.“
Hvenær verður fyrsta æfing undir þinni stjórn?
„Fyrsta æfing var á miðvikudaginn.“
Næsti leikur er á móti Tindastól í Garðinum, hvernig leggst hann í þig?
Hann leggst vel í okkur. Við erum byrjaðir að undirbúa okkur undir hörkuleik á Nesfiskvellinum á Sólseturshátiðinni.
Ertu FH-ingur, Keflvíkingur eða Víðismaður?
„Ég mun alltaf hugsa hlýlega til FH-inga. Gott fólk, frábært félag. Þar leið mér frábærlega þrátt fyrir að skipst hafi á skin og skúrir fótboltalega þar sem upphafið að endalokum leikmannaferilsins hafi byrjað þar. Keflavík hefur verið stærsti hlutinn af mínum meistaraflokksferli. Með þeim hef ég gengið í gegnum súrt og sætt. Leikið með, starfað fyrir og með svo mörgu góðu fólki að ég er nú hálfgerður Keflvíkingur. En ræturnar liggja í Garðinn. Þar ólst ég upp og spilaði með Víði í öllum flokkum, starfaði fyrir þá og hef og mun alltaf vera Víðismaður.“