Hef aldrei skorað svona sigurkörfu áður
Gunnar Ólafsson stimplaði sig með stæl inn í körfuboltaumræðuna á dögunum þegar hann tryggði Keflavík 88-85 sigur gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni í Dominosdeild karla í körfubolta. Gunnar, sem gekk til liðs við Keflavík frá Fjölni í júní s.l., skoraði magnaða þriggja stiga körfu tæplega einni sekúndu fyrir leikslok – í hreint frábærum körfuboltaleik.
„Ég ætla ekki að lifa á þessu skoti í allan vetur en vissulega hef ég aðeins hugsað um þetta atvik,“ segir Gunnar. „Það má ekki staldra og lengi við þetta – ég hef aldrei skorað svona sigurkörfu áður. Staðan var jöfn, og við höfðum engu að tapa, og ég þakka liðsfélögum mínum traustið að koma mér í þessa aðstöðu að fá að taka skotið,“ segir fyrrum Fjölnismaðurinn.
„Það var ekkert eitt ákveðið atriði sem varð til þess að ég fór til Keflavíku. Ég var ekki alveg í frystikistunni hjá Fjölni eins og margir hafa haldið en ég talaði við Fal s.l. vor. Boltinn fór að rúlla og stjórnin vildi fá mig til liðs við Keflvík. Dæmið gekk upp og ég er afar ánægður með þessa niðurstöðu.“
Gunnar, sem er tvítugur að aldri, bjó í Bandaríkjunum fyrstu sjö ár ævi sinnar á meðan faðir hans var í læknanámi.
„Ég átti heima í Iowa í Bandaríkjunum – en Falur frændi var duglegur að senda mér allskonar „Keflavíkurdót“. Ég var aðeins byrjaður að æfa körfubolta í Bandaríkjunum en ég man lítið eftir því. Þegar ég flutti til Reykjavíkur byrjaði ég að æfa með Fjölni og það var frábær tími.“
Gunnar flutti í Reykjanesbæ í byrjun sumars og hann kann vel við sig í körfuboltabænum.
„Mér líður vel hérna. Ég þekki marga núna og það eru allir að vilja gerðir að láta mér líða vel hérna,“ segir Gunnar en hann sonur Huldu Harðardóttur og Ólafs Baldurssonar. „Ég er með lítið herbergi sem ég hef útaf fyrir mig en ég er einnig mikið hjá afa og ömmu – og Falur býður mér líka oft í mat,“ segir Gunnar en afi hans er Hörður Falsson og amman er Ragnhildur Árnadóttir.
Foreldrar Gunnars voru lítið í íþróttum en systir hans, sem er þremur árum yngri, er kraftmikil fimleikakona.
„Hildur systir mín er í áhalda fimleikum og ég vildi að ég gæti gert margt af því sem hún getur gert í sinni íþrótt. Ég er afar stoltur af henni og hún er ótrúlegur íþróttamaður.“
Gunnar starfar á leikskólanum Vesturbergi í Reykjanesbæ og hann kann vel við sig í því starfi.
„Krakkarnir eru skemmtilegir en ég held að þau viti nú fæst að ég sé að spila körfubolta. Ég er bara strákurinn hérna. Það er fín og góð reynsla að vinna með börnunum og í þessu kvennaumhverfi.“
Skotstíll Gunnars er ekki ólíkur því sem að Falur Harðarson bauð upp á hér á árum áður og skotbakvörðurinn neitar því ekki að hann hafi hermt eftir frænda sínum.
„Falur hefur alltaf verið fyrirmyndin og ég reyni að taka það besta frá honum. Ég væri til í að hafa fengið tækifæri til þess að spila við hann þegar hann var upp á sitt besta en ég er nokkuð rólegur yfir því ef ég ætti að mæta honum í leik dag.“
Gunnar hefur stimplað sig rækilega inn í upphafi þessa tímabils og sigurkarfa hans gegn Njarðvík fer án efa í sögubækurnar. Hann undirbjó sig vel fyrir tímabilið og kann vel við sig undir stjórn Andy Johnston þjálfara liðsins.
„Ég hef tekið öll sumur alvarlega og æft af krafti. Síðasta sumar var engin undantekning. Ég setti mér lítil markmið fyrir sumarið og það er alltaf gaman þegar maður nær þeim. Það er oft mikið fjör á æfingum og þjálfarinn lætur okkur vita af því ef eitthvað er í ólagi. Þannig á það líka að vera og við erum alltaf að bæta okkur,“ sagði Gunnar Ólafsson.