Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hausverkur fyrir þjálfarann að velja liðið – mikill hugur í hópnum, segir Guðjón Árni
Þriðjudagur 8. september 2009 kl. 12:08

Hausverkur fyrir þjálfarann að velja liðið – mikill hugur í hópnum, segir Guðjón Árni


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta leggst vel í okkur. Það eru allir að verða klárir og hópurinn er fullskipaður. Höfuðverkurinn verður Kristjáns þjálfara að velja liðið því það vilja allir taka þátt í svona leik og meiðslalistinn er tæmdur,“ sagði Guðjón Árni Antóníusson, annar tveggja fyrirliða Pepsi deildarliðs Keflavíkur í knattspyrnu en liðið mætir Breiðabliki í undanúrslitum á Laugardalsvellinum á sunnudag.

Keflvíkingar hafa ekki riðið feitum hesti í Pepsi-deildinni undanfarnar vikur og ekki unnið leik síðan 23. júlí. Þeir lögðu hins vegar Íslandsmeistara FH í VISA bikarnum og eru komnir í undanúrslit þar sem þeir mæta þeim grænklæddu úr Kópavoginum. Blikarnir hafa verið á siglinu og ekki tapað leik í síðustu sex umferðum. Það er því ljóst að Keflvíkingar munu mæta erfiðum Blikum.

„Við höfum verið að æfa og vinna í okkar málum. Við stefnum alla leið og ætlum að viðhalda þeirri bikarhefð sem ríkt hefur í Keflavík“.


Keflvíkingar unnu bikarinn 2004 og 2006 að ógleymdu árinu 1997 en þá lögðu þeir Eyjamenn í vítaspyrnu í öðrum úrslitaleik. Margir leikmenn liðsins í dag léku með Keflavík í síðustu tveimur bikarsigrum eða öðrum þeirra. Þrír þeirra, þeir Haukur Ingi Guðnason, Jóhann B. Guðmundsson og Guðmundur Steinarsson voru meira að segja í liðinu 1997 og þeir Haukur og Jóhann í byrjunarliðinu og lykilmenn þess þá. Það er því óhætt að segja að það sé bikarhefð í bítlabænum.

„Þetta hafa verið frísklegir leikir gegn Blikum í sumar og við þekkjum þá mjög vel, kvíðum ekki að mæta þeim þó svo að þeir hafi verið á góðu skriði. Það verður gaman að leika á Laugardalsvellinum og við vonum að stuðningsmenn okkar fjölmenni á leikinn. Það skiptir okkur miklu máli,“ sagði Guðjón Árni.

Keflvíkingar eru  með fullskipaðan hóp og það verður því lúxusverkefni hjá þjálfaranum að velja hópinn sem mætir Blikum á sunnudag. Hér er mynd úr leik Keflavíkur og FH í bikarnum í sumar en á efri myndinni eru  Guðjón Árni Antóníussson, fyrirliði og Kristján Guðmundsson, þjálfari.