Haukur Ingi á leið til Karnten?
Svo gæti farið að Haukur Ingi Guðnason landsliðsmaður í knattspyrnu úr Keflavík sé á leið til Austuríska liðsins Karnten. Haukur var til reynslu hjá liðinu í vikunni og leist forráðamönnum félagsins vel á kappann og vilja gera samning við hann. Haukur er samningsbundinn Keflavík og ef svo færi að hann yfirgefi liðið á Keflavík rétt á greiðslu."Þetta gekk vel og forráðamenn liðsins vildu semja strax en þeir héldu í fyrstu að ég væri samningslaus en svo er ekki. Því þurfa þeir að ræða þetta við Keflavík. Ég vil að Keflavík fái eitthvað í sinn hlut fyrir mig. Þessir hlutir verða hins vegar ræddir á næstunni en ég verð að gefa Kärnten ákveðið svar fyrir 15. nóvember og það er frekar knappur tími fyrir eitthvert samningaþras. Verði af samningum við liðið get ég hins vegar ekki leikið með því fyrr en eftir vetrarhléið, í lok febrúar á næsta ári. Mér leist vel á mig hjá liðinu og er spenntur að skoða tilboð þeirra til hlítar þegar að því kemur," sagði Haukur Ingi í samtali við Morgunblaðið í morgun.