Haukir Ingi kominn heim
Keflvíkingurinn Haukur Ingi Guðnason, er sem kunnugt er kominn heim til Íslands og mun leika með Íslands- og bikarmeisturum KR í Landssímadeildinni í sumar. Knattspyrnudeild Keflavíkur hafði einnig haft samband við Liverpool um að fá kappann í sínar raðir í sumar, en það gekk ekki upp, þar sem Vesturbæingarnir voru fljótari á sér og nældu í hann á undan. „Þessi ákvörðun var algerlega undir Liverpool komin. Þeir ákváðu að athuga tilboð KR-inga áður en þeir færu að skoða tilboðið frá Keflavík. Þar sem samningar við KR gengu vel, komust aldrei á umræður við Keflavík,“ sagði Haukur Ingi í samtali við Víkurfréttir í gær. Haukur segir að ef hann hefði sjálfur fengið að velja, hefði staðan hugsanlega verið öðruvísi. „Því er þó ekki að neita að KR er stærsta félagið hér á landi og er í Evrópukeppninni, þannig að það er fínt að fá að spreyta sig þar,“ segir Haukur. Hann segist vita af skiptum skoðunum um hinn nýja þjálfara KR-inga, Pétur Pétursson, en kveðst sjálfur hafa góða reynslu af honum sem þjálfara. „Pétur þjálfaði mig þegar ég var í þriðja flokki hér í Keflavík og gaf mér mitt fyrsta tækifæri með meistaraflokki. Hann á líka vafalaust eftir að geta kennt mér sitthvað, enda var hann einn besti framherji landsins á sínum tíma.“ Haukur hefur ekki fengið mörg tækifæri til að leika með A-liði Liverpool, enda verið heldur óheppinn með meiðsli. „Ég var í byrjunarliðinu hjá Gerard Houllier, þjálfara Liverpool, í æfingaleik fyrir síðasta tímabil, en þá þurfti ég að fara út af eftir nokkrar mínútur með heiftarlega matareitrun, þannig að þar fór það tækifæri til að sanna sig fyrir þjálfaranum.“ Haukur er 21 árs og á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Liverpool, hann útilokar ekki að skipta um klúbb eftir næsta tímabil, en segist einblína á það núna að standa sig vel með KR í sumar. „Það verður örugglega svolítið undarlegt að leika gegn Keflvíkingum í sumar, enda er ég fæddur og uppalinn þar. Ég óska þeim góðs gengis í baráttunni í sumar,“ segir Haukur Ingi Guðnason, „KR-ingur“ að lokum.