Haukar of sterkir á heimavelli
Njarðvík steinlá fyrir Haukum þegar liðin mættust í gærkvöldi í IE-deild kvenna í körfuknattleik. Þegar yfir lauk skildu 29 stig liðin að en úrslit urðu 94-65. Leikurinn fór fram á Ásvöllum í Hafnarfirði.
Fyrsti leikhlutinn var nokkuð jafn framan af en Njarðvík hafði forystuna uns Hafnfirðingar náðu að jafna leika um miðjan leikhlutann, 15-14. Eftir það sigu heimastúlkur framúr og höfðu 9 stiga forystu í lok fyrsta leikhlutans, 29-20.
Í öðrum leikhluta tóku Haukastúlkur leikinn í sínar hendur með feikna góðum leikkafla sem skilaði þeim 27 stiga forystu í hálfleik. Munaði þar mestu um frábæran leik Heather Ezell sem Njarðvík átti engin svör við.
Segja má að Haukar hafi gert út um leikinn í fyrri hálfleik því forystu þeirra var aldrei ógnað í þeim síðari.
Shantrell Moss var burðarásinn í leik Njarðvíkur, skoraði 30 stig og hirti 15 fráköst. Ólöf Helga Pálsdóttir var með 17 stig.
---
Mynd - Shantrell Moss var öflug í liði Njarðvíkur með 30 stig og 15 fráköst.