Hársbreidd frá HM lágmarkinu
Sundmótið Ægir International fór fram í Laugardal um síðustu helgi og þar stóð sundkonan Erla Dögg Haraldsóttir sig með eindæmum vel. Hún var aðeins 0,89 sekúndum frá því að ná lágmarkinu inn á heimsmeistaramótið sem fram fer í Ástralíu í mars.
Erla Dögg synti fjórsundið á 2.21.53 mín. og bætti mótsmetið í þessari grein um tæpar sjö sekúndur og fyrri árangur um tæplega þrjár sekúndur með þessu frábæra sundi. Þetta var næstbesti tími sögunnar hjá íslenskri sundkonu í fjórsundi. Sund Erlu var fimmta besta afreks mótsins um helgina og hlaut hún fyrir það sérstök verðlaun í mótslok en eingöngu Jakob Jóhann Sveinsson og erlendu keppendurnir voru stigahærri.
Lið ÍRB sem heild sýndi góðan árangur og voru margir þeirra sundmenn að komast í úrslit og vinna til verðlauna á mjög góðum tímum bæði í yngri og eldri flokkunum.
Gunnar Örn Arnarson náði lágmörkum fyrir alþjóðlegt unglingamót í Luxemborg nú í apríl og Margrét Lilja Margeirsdóttir náði lágmörkum inn í æfingahópa SSÍ. Flott helgi hjá sundfólki ÍRB sem greinilega er á réttri leið fyrir Íslandsmótið í 50m laug í mars.
VF-mynd/ [email protected] - Hluti af hóp ÍRB ásamt þjálfurum sínum Eðvarði og Steindóri í Laugardal um helgina.