Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Harmleikur í Víkinni
Haukur Ingi og Jóhann Birnir geta verið vonsviknir með frammistöðu sinna manna í kvöld
Sunnudagur 19. júlí 2015 kl. 21:30

Harmleikur í Víkinni

7-1 tap og Keflavík í vondum málum

Keflvíkingar léku í kvöld sinn versta leik í sumar þegar liðið steinlá, 7-1, fyrir Víkingum í Fossvoginum í 12. umferð Pepsí deildar karla. Keflavík hefur þar með grafið holu sína enn dýpri en liðið situr sem fastast á botni deildarinnar með 5 stig og 31 mark fengið á sig í 12 leikjum.

Keflavík byrjaði leikinn betur og virkuðu líklegri til að brjóta ísinn framan af. Hinn bandaríski „Chuck“ Chijindu fékk tækifærið og byrjaði leikinn í framlínu Keflavíkur en hann gekk til liðs við Keflvíkinga þegar félagaskiptaglugginn opnaði fyrr í mánuðinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Víkingar voru þó fyrri til að skora og var þar að verki Hallgrímur Steingrímsson á 25. mínútu eftir að hafa komist einn inn fyrir vörn Keflvíkinga. Sindri Snær Magnússon var svo nálægt því að jafna leikinn í tvígang en skot hans voru bæði vel varin af markverði Víkinga, Thomas Nielsen.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks varð Unnar Már Unnarsson fyrir því óláni að setja boltann í eigið net eftir að Víkingar höfðu sótt upp vænginn og skilað fyrirgjöf inn í teiginn sem að Unnar ætlaði að hreinsa frá en þess í stað sigldi boltinn upp í markhornið. Þannig stóðu leikar í hálfleik og ljóst að róðurinn yrði þungur hjá Keflavík í síðari hálfleiknum. Keflvíkingar höfðu stjórnað leiknum á löngum köflum en þær fáu sóknir sem enduðu með góðum færum fóru því miður forgörðum. Hinum megin á vellinum skall oft hurð nærri hælum og varnarleikurinn verulega óstöðugur fyrstu 45 mínúturnar.

Magnús Þórir Matthíasson hleypti svo lífi í leikinn eftir 10 mínútna leik í síðari hálfleik eftir að hafa fengið góða sendingu frá Daníel Gylfasyni. Magnús kláraði færið afar vel og staðan orðin 2-1 og leikurinn skyndilega galopinn. 

Það var svo á 65. mínútu sem að leikur Keflvíkinga gjörsamlega hrundi og við tóku einhverjar ótrúlegustu 20 mínútur af Pepsí deildar fótbolta sem að undirritaður hefur séð. Víkingar skoruðu hvorki meira né minna en 5 mörk á þessum kafla þar sem að varamaður heimamanna, Vladimir Tufegdzic, kom við sögu í öllum mörkunum en kappinn lagði upp heil fjögur mörk og skoraði eitt sjálfur. Öll mörkin komu eftir skyndisóknir heimamanna eftir að Keflvíkingar freistuðu þess að færa lið sitt ofar í von um að jafna metin. Keflvíkingar litu út eins og byrjendur í knattspyrnu og skyndilega var staðan orðin 7-1. Óþarft er að fara fleiri orðum um síðari hálfleikinn, Víkingar sögðu einfaldlega „skák og mát“ og þar með var það búið.

Það er erfitt að finna ljósu punktana eftir svona útreið, það eiginlega býður ekki uppá það. Vörn Keflvíkinga var illa leikin í kvöld eins og svo oft áður í sumar og virðist ekki skipta máli hvaða leikmenn eru settir í öftustu línu. Liðið er hreinlega skrefi eða tveimur á eftir öðrum liðum í varnarleik og er það ekki boðlegt í efstu deild í knattspyrnu.

30 stig eru eftir í Pepsí deildar pottinum og af þeim verða Keflvíkingar að taka a.m.k. 12-13 til að eiga möguleika á að halda sæti sínu í deildinni, ef ekki fleiri. Við taka leikir á móti FH og Breiðablik og verður liðið að grafa dýpra í sjálfskoðun sinni og mæta á svæðið með alvöru hungur í vasanum. Það sem liðið bauð uppá í Víkinni í kvöld á ekki heima í deild þeirra bestu.

[email protected]