Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Haraldur til Kýpur og Guðmundur til Liechtenstein
Laugardagur 17. janúar 2009 kl. 16:15

Haraldur til Kýpur og Guðmundur til Liechtenstein

Keflvíkingurinn Haraldur Freyr Guðmundsson sem leikið hefur með Aalesund í Noregi síðastliðin fjögur ár er búinn að skrifa undir eins og hálfs árs samning við kýpverska liðið Apollon, að sögn mbl.is. Haraldur verður fyrsti íslendingurinn til að spila með kýpversku liði, en Apollon var meistari árið 2006 og stefnir á að vera ekki neðar en í fjórða sæti í ár, en það gefur þeim Evrópusæti. Liðið situr nú í fimmta sæti kýpversku deildarinnar eftir sautján umferðir. Haraldi barst tilboðið á þriðjudaginn og var mættur til Kýpur á fimmtudeginum. Hann mun fylgjast með leik hjá þeim á morgun ásamt því að gangast undir læknisskoðun. Að sögn Haralds mun hann hækka töluvert í launum, en honum líst mjög vel á aðstæður hjá nýja félaginu.

Fyrirliði Keflavíkinga, Guðmundur Steinarsson samdi í gær til sex mánaða við FS Vaduz í Liechtenstein. Guðmundur var markakóngur Landsbankadeildarinnar sl. sumar og var einnig valinn besti leikmaður Íslandsmótsins. Hann hélt út til Liechtenstein á miðvikudaginn og gekkst undir læknisskoðun, en félagið spilar í svissnesku úrvaldsdeildinni og er eins og stendur í næst neðsta sæti. Guðmundur sagði í samtali við Víkurfréttir að hlutverk hans yrði að bæta sóknarleik liðsins, en honum líst vel á komandi tíma. Fjölskylda hans mun flytja út til hans fljótlega og aðstæður ytra séu til fyrirmyndar. Hann segir verkefnið spennandi og deildina sterka.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024