Haraldur til Keflavíkur fyrir stórleikinn við FH
Haraldur Guðmundsson, fyrrverandi fyrirliði Pepsi deildarliðs Keflavíkur í knattspyrnu hefur gengið til liðs við sitt gamla félag og mun leika með því út keppnistíðina að minnsta kosti. „Ég er mjög ánægður að vera kominn til míns gamla félags,“ sagði Haraldur við undirskrift samningsins í dag.
Haraldur var síðast með Keflavík þegar liðið varð bikarmeistari 2004. Kristján Guðmundsson var í skýjunum á blaðamannafundinum með nýja leikmanninn og sagði það klókt hjá stjórn félagsins að styrkja liðið og það sé mikill plús að það sé Keflvíkingur. Aðspurður um stóra leik Keflavíkur gegn Íslandsmeisturum FH á fimmtudag í bikarnum og í hvaða stöðu Haraldur komi til með að leika, segir hann undirbúning ganga vel og ekki sé ólíklegt að það verði eitthvað óvænt í liðsuppstillingunni gegn FH.
Haraldur lék nú í vetur og fram á vor í sex mánuði hjá liðinu Apallon á Kýpur en áður var hann í nokkur ár með Álasund í Noregi. Hann segir að fyrir stuttu síðan hafi forseti félagsins hætt og upplausn verið í stjórn þess og því hafi hann fengið sig lausan frá félaginu. „Það voru nokkur félög í Bretlandi sem buðu mér samning en í ljósi aðstæðna ákvað ég að vera á heimaslóðum. Það var ekki erfið ákvörðun og ég hlakka til að spila með mínu gamla félagi. Hér slær mitt hjarta. Kannski tekst okkur að endurtaka leikinn frá 2004, það er aldrei að vita,“ sagði Haraldur.
Eiginkona Haraldar, Freyja Sigurðardóttir er ólétt og á von á sér innan mánaðar og spilaði það eflaust inn í ákvörðun Haraldar og Freyju. Í samningnum er klásúla um að verði hann áfram á Íslandi muni hann leika með Keflavík.
VF/mynd/pket: F.v. Þorsteinn Magnússon, formaður Keflavíkur, Haraldur, Kristján þjálfari og Einar Ásbjörn aðstoðarþjálfari.
Efri mynd: Haraldur með Keflavíkurbúninginn sem hann mun leika í gegn FH á fimmtudag.