Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Haraldur kominn í 100 leiki
Mánudagur 30. júlí 2012 kl. 14:51

Haraldur kominn í 100 leiki

Haraldur Freyr Guðmundsson, fyrirliði Keflavíkurliðsins í knattspyrnu, lék sinn 100. leik fyrir félagið í efstu deild þegar Keflavík mætti Fylki í Pepsi-deildinni á dögunum. Það þarf ekki að taka fram að Haraldur er uppalinn Keflvíkingur og lék með yngri flokkum félagins. Hann lék sinn fyrsta leik í efstu deild 31. ágúst 1999 en það var leikur gegn Breiðabliki á útivelli. Haraldur Freyr varð bikarmeistari með Keflavík árið 2004 en hélt þá í atvinnumennsku og lék næstu árin í Noregi og Kýpur.  Hann kom aftur til Keflavíkur árið 2009 en lék síðan aftur í Noregi seinni hluta síðasta sumars.

Haraldur hefur þar með bæst í fríðan hóp leikmanna sem hafa leikið 100 leiki fyrir Keflavík í efstu deild.  Eftir því sem næst verður komist er hann 31. leikmaðurinn sem nær þessum áfanga fyrir félagið. Ekki eru til nákvæmar upplýsingar um leiki leikmanna fram undir 1970 og því hefur að hluta þurft að meta fjölda leikja fyrir þau ár.  Efstur á listanum er að sjálfsögðu Guðmundur Steinarsson sem er kominn með 234 leiki en síðan koma Sigurður Björgvinsson með 214 leiki, Þorsteinn Bjarnason með 180, Gunnar Oddsson og Óli Þór Magnússon með 177 og Gestur Gylfason með 172 leiki.  Magnús Sverrir Þorsteinsson er kominn í 171 leik og aðrir núverandi leikmenn Keflavíkur með 100+ leiki eru Ómar Jóhannsson með 137 leiki og Jóhann Birnir Guðmundsson með 118.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nokkur hreyfing hefur einnig orðið á listanum yfir markahæstu leikmenn félagsins í efstu deild.  Ekki þarf að taka fram að Guðmundur Steinarsson bætir sífellt markametið og er kominn með 79 mörk.  Jóhann Birnir Guðmundsson er kominn í 7.-8. sæti með 30 mörk ásamt Herði Sveinssyni og Magnús Sverrir Þorsteinsson er nú í 12.-14. sæti með 24 mörk eins og þeir Einar Ásbjörn Ólafsson og Jón Jóhannsson.

Þó hér sé verið að tala um þá sem eru efst á listum yfir leikja- og markahæstu leikmenn Keflavíkur er alltaf að bætast við listana.  Sigurbergur Elísson skoraði á dögunum sitt fyrsta mark í efstu deild og í sumar hafa Grétar Atli Grétarsson, Gregor Mohar, Denis Selimovic, Kristinn Björnsson og Daníel Gylfason allir leikið sinn fyrsta leik fyrir Keflavík í efstu deild.

Keflavík.is greinir frá.