Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Haraldur jákvæður fyrir leiknum gegn Val
Haraldur Freyr er bjartsýnn fyrir leikinn á eftir. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 13. ágúst 2023 kl. 14:17

Haraldur jákvæður fyrir leiknum gegn Val

Haraldur Freyr Guðmundsson fær ekki langan tíma til að undirbúa Keflavíkurliðið fyrir leikinn í dag. Valsleikurinn í dag verður fyrsti leikurinn undir stjórn Haraldar eftir að Sigurði Ragnari Eyjólfssyni var sagt upp störfum og Haraldur gerður að aðalþjálfara.

„Þetta er náttúrlega skammur fyrirvari sem ég fæ til að undirbúa liðið. Eiginlega bara tvær æfingar, á föstudag og laugardag, svo við höfum verið að æfa það sem við viljum leggja áherslu á gegn Val án þess að taka einhverja U-beygju,“ sagði Halli þegar Víkurfréttir heyrðu í honum stuttu fyrir leik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eru allir heilir og enginn í banni á eftir?

„Já, allir eru heilir og enginn banni þannig að við getum stillt upp okkar sterkasta liði á eftir.“

Þótt Keflavík hafi ekki gengið sem skildi í sumar, og sé í neðsta sæti Bestu deildar karla, þá hafa Keflvíkingar gert jafntefli við þrjú efstu liðin á tímabilinu; Víking (3:3), Val (0:0) og Breiðablik (0:0). Þá hafa mörg stig tapast á lokamínútum í sumar, tímabilið hefur eiginlega verið stöngin út hjá Keflavík.

Hvernig tók hópurinn þessum breytingum, að Siggi færi og þú tækir við, lá þetta ekki í loftinu?

„Eins og ég segi þá höfðum við stuttan tíma til að undirbúa okkur fyrir Valsleikinn og einbeittum okkur að honum – en andinn er góður í hópnum og menn tilbúnir að leggja sig fram. Völlurinn og veðrið – Sunny Kef gæti ekki verið betri svo það eru engar afsakanir í boði.

Ég vona líka að stuðningsfólkið okkar mæti og standi við bakið á strákunum. Þeir eru staðráðnir í að snúa við genginu og vilja sýna þeim það í verki,“ sagði Halli að lokum.