Haraldur frá næstu vikurnar
Knattspyrnumaðurinn Haraldur Freyr Guðmundsson er meiddur í baki og verður væntanlega frá keppni með norska liðinu Aalesund næstu vikurnar. Fyrir meiðslin hafði Haraldur aðeins leikið einn leik með liðinu en deildin í Noregi er nýhafin. Skemmst er að minnast flugeldaóhapps sem Haraldur varð fyrir hér á Íslandi yfir áramótin þar sem sauma þurfti hann tugi spora í annan lófann en Haraldur var fljótur að jafna sig á því en nú hafa gömul bakmeiðsl tekið sig upp.
Haraldur segir í samtali við Fréttablaðið í dag að ekki sé ljóst hve lengi hann verður frá en það verði örugglega einhverjar vikur. Haraldur segist ennfremur hafa vaknað einn morguninn mjög stífur í bakinu og að sársaukinn sé það mikill að hann geti ekki æft með Aalesund.
Haraldur hefur áður meiðst í baki þegar hann lék með 2. flokki Keflavíkur en þá var hann frá í 2-3 mánuði. Haraldur segir tímasetningu meiðsla sinna núna vera slæma og vonast eftir skjótum bata.
Heimild: Fréttablaðið / www.visir.is